Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja fækka bæjarfulltrúum úr níu í sjö í Suðurnesjabæ
Fimmtudagur 14. apríl 2022 kl. 08:56

Vilja fækka bæjarfulltrúum úr níu í sjö í Suðurnesjabæ

– og spara 32 milljónir króna á kjörtímabilinu

Fulltrúar B- og J-lista í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar vilja fækka bæjarfulltrúum á næsta kjörtímabili úr níu í sjö. Kostnaður við hvern bæjarfulltrúa er um fjórar milljónir á ári og með fækkun um tvo sparast um 32 milljónir á kjörtímabilinu. Ákveðið var við sameiningu Garðs og Sandgerðis í Suðurnesjabæ að fjölga bæjarfulltrúum í níu til að fá sem flesta að borðinu við þau verkefni sem fylgdi sameiningunni. Bæjarfulltrúarnir sem lögðu fram tillöguna segja sjö bæjarfulltrúa ráða við verkefnið á komandi kjörtímabili.

Bókun frá B- og J-lista:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Samkvæmt 11. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skal fjöldi aðalmanna í sveitarstjórn þar sem íbúar eru 2.000-9.999 vera 7-11. Íbúar Suðurnesjabæjar eru um 3800 og önnur sveitarfélög á landinu með svipaðan fjölda íbúa hafa flest 7 aðalmenn í sveitarstjórn, þeim fjölgar í 9 þegar íbúafjöldi nær 5000. Því telja fulltrúar B- og J-lista mikilvægt að endurskoða fjölda bæjarfulltrúa og fækka þeim úr 9 í 7.

Ástæða fjölgunar bæjarfulltrúa í byrjun síðasta kjörtímabils var að fá sem flesta að borðinu til að vinna að sameiningarferli sveitarfélaganna Sandgerðis og Garðs. Nú hefur sú vinna staðið yfir í fjögur ár og teljum við að verkefnum sveitarfélagsins geti vel verið sinnt af 7 bæjarfulltrúum eins og hjá öðrum sveitarfélögum af svipaðri stærð. Með þessu er hægt að hagræða í launakostnaði sveitarfélagsins og gera störf sveitarstjórnar skilvirkari. Kostnaður sveitarfélagsins fyrir hvern bæjarfulltrúa er í kringum 4.000.000 á ári, sem gerir í kringum 32.000.000 fyrir kjörtímabilið.

Þrátt fyrir að ekki er hægt að verða við þessu fyrir sveitarstjórnarkosningar núna í maí 2022 viljum við fulltrúar B- og J-lista vekja athygli á þessu og með því hvetja nýja bæjarfulltrúa til þess að fylgja málinu eftir. Þá hvetjum við nýja bæjarfulltrúa, samhliða því að fækka aðalmönnum í sveitarstjórn, til þess að endurskoða skipan nefnda og ráða með það að markmiði að gera nefndarstörf sveitarfélagsins skilvirkari og auka aðkomu einstakra nefndarmanna að stefnumótun sveitarfélagsins í veigamiklum málum sem snerta alla íbúa.“

Allir bæjarfulltrúar á fundinum, Daði Bergþórsson, Fríða Stefánsdóttir, Katrín Pétursdóttir, Haraldur Helgason, Laufey Erlendsdóttir, Pálmi Steinar Guðmundsson, Einar Jón Pálsson, Magnús Sigfús Magnússon og Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, tóku til máls um tillöguna en afgreiðsla hennar var að hún var lögð fram.