Vilja fá að vera í friði á lokaðri braut
Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar fimmtudaginn 9. janúar var samþykkt að veita Vélhjólaíþróttafélagi Reykjaness leyfi til afnota af „Broadstreet“ svæðinu á mótum Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Í bókun bæjarráðs segir: „ Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti tímabundna notkun lands enda uppfylli félagið lagaleg skilyrði. Gildir leyfið til 17. október 2005 samanber afgreiðslu á erindi Litboltafélags Suðurnesja um sama mál.“Jóhannes Sveinbjörnsson einn af stofnendum Vélhjólaíþróttafélags Reykjaness sagði í samtali við Víkurfréttir að fulltrúi Sýslumannsins í Keflavík væri með óraunhæfar kröfur um að skrá vélhjólin: „Fulltrúi sýslumannsins vill að við skráum öll hjól sem verða á brautinni sem bæjarráð hefur samþykkt að úthluta okkur. Mótocross hjólin eiga einungis að verða notuð inn á lokuðum brautum og það ætlum við að gera. Það er óhemjudýrt að skrá svona hjól. Við viljum bara fá brautina og fá að vera þar í friði á lokaðri braut.“ Jóhannes segir ennfremur að samskonar brautir séu í notkun á landinu: „Það eru brautir á Selfossi, Ólafsvík og Akureyri og þar eru hjólin óskráð, enda er þar um lokaðar brautir að ræða eins og verður hjá okkur. Það eru torfærubílar og götubílar sem eru óskráðir víða, ásamt fleiri ökutækjum sem notuð eru á lokuðum brautum. Ég skil ekki afhverju aðrar reglur eiga að gilda um okkar hjól.“
Ljósmynd: Félagar í Vélhjólaíþróttafélagi Reykjaness að keppa á svæðinu sem þeim hefur verið úthlutað.
Ljósmynd: Félagar í Vélhjólaíþróttafélagi Reykjaness að keppa á svæðinu sem þeim hefur verið úthlutað.