Vilja endurbyggðan Vatnsleysustrandarveg
Bæjarráð Voga telur miklvægt að Vatnsleysustrandarvegur verði endurgerður og samhliða honum verði lagður hjólreiðastígur og reiðleið. Það sé mikilvægt fyrir bæði umferðaröryggi og ferðaþjónustu á svæðinu.
Í Samgönguáætlun 2009-2012 er gert ráð fyrir framlögum til sjóvarna í sveitarfélaginu árið 2012 og fagnaði bæjarráð því á fundi sínum í gær. Um leið leggur bæjarráð áherslu á mikilvægi þess að Vatnsleysustrandarvegur verði endurgerður og samhliða lagður hjólreiðastígur og reiðleið í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, sbr. ályktun aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum frá 17. október 2009.
„Bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar hafa á fundum með fjárlaganefnd Alþingis og þingmönnum Suðurkjördæmis lagt mikla áherslu á þetta verkefni og mikilvægi þess fyrir umferðaröryggi og ferðaþjónustu á svæðinu. Þegar tvöföldun Reykjanesbrautar lýkur, er gert ráð fyrir því að hjólreiðaumferð verði bönnuð, því er afar mikilvægt að tímanlega verði hugað að gerð hjólreiðastígs meðfram Vatnsleysustrandarvegi.
Vegurinn fór mjög illa við jarðvegsflutninga tengdum framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar. Öryggi vegarins er ekki nægilega mikið, sem sést best á því að flest umferðarslys í sveitarfélaginu verða á Vatnsleysustrandarvegi.
Jafnframt telur bæjarráð mikilvægt að gerð verði undirgöng undir Vogabraut fyrir ríðandi og gangandi, í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins,“ segir í fundargerð bæjarráðs.
----
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson – Horft eftir Vatnsleysuströnd.