Vilja ekki öryggisvistun í Reykjanesbæ
Reykjanesbær telur ekki vænlegt að öryggisvistun verði reist í núverandi íbúabyggð eða á svæði þar sem íbúabyggð er á skipulagi á næstu árum. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Reykjanesbæjar sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi 18. október.
„Það er mat okkar að undirbúningur og kynning ríkisins á hugmyndafræði og uppbyggingu öryggisvistunar í Reykjanesbæ gagnvart íbúum hefur hingað til ekki tekist vel. Reynt var að koma á tengingu milli hverfaráðs Innri-Njarðvíkur og ráðuneytis sem virðist ekki hafa borið árangur. Birtingarmynd óöryggis íbúa gagnvart verkefninu er augljós. Fjöldi íbúa hefur talað gegn þessu verkefni og einnig hefur farið fram undirskriftasöfnun með hvatningu þess efnis að öryggisvistun verði ekki byggð nálægt íbúabyggð í Reykjanesbæ.“
Meðfylgjandi greinargerð lýsir mati bæjaráðs Reykjanesbæjar á grundvelli þess að byggja öryggisvistun í Reykjanesbæ:
„Fjölgun íbúa Reykjanesbæjar hefur verið gífurleg undanfarin ár og sveitarfélagið hefur verið eitt helsta vaxtarsvæði Íslands og ekki eru líkur á að það muni breytast næstu ár. Innviðir sveitarfélagsins og uppbygging þeirra hafa ekki fylgt þeirri þróun. Á það bæði við um stofnanir á vegum ríkisins og stofnanir sem sinna lögbundinni þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur til að mynda í mörg ár glímt við fjárhagserfiðleika auk þess sem erfitt hefur reynst að fullmanna stöður þar og óljóst er hvenær ný samþykkt heilsugæsla mun rísa. Fjármagn til stofnunarinnar hefur engan veginn verið í takt við fjölgun íbúa og ljóst að lyfta þarf grettistaki ef stofnunin á að geta sinnt grunnþjónustu við íbúa.
Einnig hefur verið mikil fjölgun einstaklinga sem komið hafa til sveitarfélagsins sem flóttamenn og í leit að alþjóðlegri vernd. Þeir einstaklingar, sem telja nú um 600 manns, eru að hluta til í þjónustu í gegnum samninga sveitarfélagsins og ríkis en svo er nokkur stór hluti þeirra sem Vinnumálastofnun þjónustar en þrátt fyrir það þurfa þau að nýta þjónustu innviða í sveitarfélaginu s.s. heilbrigðisþjónustu, löggæslu, sjúkraflutninga og menntastofnanir. Álag á starfsfólk bæjarins og stofnanir hefur aðeins aukist vegna stefnu ríkisins um að taka á leigu húsnæði í Reykjanesbæ fyrir ört stækkandi hóp flóttafólks. Fjölgun þeirra hefur verið gríðarleg og að mestu hefur sú fjölgun verið án samráðs við sveitarfélagið. Samskipti og samvinna hefur verið lítil sem engin og framtíðarstefna um móttöku flóttafólks ekki verið tekin með sveitarfélaginu sem er mjög miður.
Íbúar Reykjanesbæjar hafa á vissan hátt þurft að líða fyrir skort á þjónustu á mörgum sviðum þar sem stofnanir ríkisins hafa ekki fengið það fjármagn sem þörf er á og í takt við fjölgun íbúa. Þessar sömu stofnanir þurfa líka að vera til staðar fyrir öryggisvistun ef hún myndi rísa og því er ekki ljóst hvort hægt sé að treysta á þjónustu þeirra ef til þess kæmi.
Í ljósi þessa telur bæjarráð að það stoðnet sem kynnt hefur verið af ráðuneytinu sem mikilvægt að sé til staðar fyrir starfsemi öryggisvistunar sé ekki nægilega tryggt og af þeim sökum sé ekki vænlegt að reisa slíka stofnun nema að mikill viðsnúningur verði sérstaklega í starfsemi lögreglu og heilbrigðisstofnunar.“