Vilja ekki kaupa íbúðir af Íbúðalánasjóði
-Eignir Íbúðalánasjóðs í Sandgerði og Reykjanesbæ passa ekki inn í félagslega húsnæðiskerfið
Íbúðalánasjóður á 509 eignir í sveitarfélögum og eiga þau nú kost á að kaupa eignirnar af sjóðnum. Reykjanesbæ, Sandgerði og Garði bauðst að kaupa fasteignir af Íbúðarlánasjóði. Reykjanesbær og Sandgerði hafa tilkynnt Íbúðarlánasjóði að þeir hafi ekki áhuga á þessum fasteignum. Garður náði ekki að afgreiða málið á bæjarráðsfundi í júní en áætlar að taka það fyrir á fundi nú í júlí og senda Íbúðarlánasjóði svar í framhaldi.
„Við teljum að þær íbúðir sem enn eru í eigu Íbúðalánasjóðs henti okkur ekki og að aðrir kostir til að fjölga félagslegu húsnæði séu æskilegri. Þessar íbúðir eru flestar í útleigu og myndu ekki slá á húsnæðisskortinn. Allar félagslegar íbúðir eru í útleigu og biðlisti eftir þeim,“ segir Elísabet Þórarinsdóttir sviðstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Sandgerðisbæjar.
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir að þessar eignir Íbúðalánasjóðs hafi ekki passað því sem Reykjanesbær þarfnast. „Þetta eru ekki eignir sem við erum að leita að í félagslega húsnæðiskerfið okkar. Það er eina ástæðan fyrir því að við höfðum ekki áhuga á að kaupa þessar íbúðir. Margar að þeim þarfnast mikils viðhalds og mikill kostnaður myndi liggja í því að breyta þeim þannig að þær hentuðu fyrir félagslega húsnæðiskerfið hjá okkur. Við erum bæði að selja íbúðir sem henta ekki í félagslega húsnæðiskerfið og kaupa aðrar í staðinn. Samsetning hópsins sem þarfnast húsnæðis í félagslega húsnæðikerfinu er síbreytilegur og því þarf að finna húsnæði sem hentar hverju sinni. Þessa dagana er mest þörf á einstaklings íbúðum.“
Nú eru um 80 manns á biðlista eftir íbúðum í félagslega húsnæðiskefið í Reykjanesbæ og hefur verið svipaður um einhvern tíma. „Langur biðlisti þarf ekki endilega að endurspegla þörfina. Það getur verið að hluti hafi ekki rétt á íbúðum í félagslega kerfinu. Við erum að leiðrétta leiguverð á íbúðunum og hækka það í samræmi við markaðinn. Við erum samt 20- 25% undir leiguverði hér. Það hefur verið mikið um fólksflutninga hingað síðustu ár eða um 2000 manns. Þetta kallar á aukið húsnæði í sveitafélaginu líka í félagslega húsnæðiskerfinu. Reykjanesbær hefur verið að gera vel í félagslega húsnæðiskerfinu en þetta er dýrt og því þarf sífellt að vera að hagræða þarna eins og annars staðar í sveitarfélaginu,“ segir Friðjón.
Þetta er í annað sinn sem Íbúðalánasjóður býður sveitarfélögum til viðræðna um kaup á eignum, en í sambærilegu átaki fyrir um ári seldi sjóðurinn um sextíu eignir til sveitarfélaga.