Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja ekki eyrnamerkja söluhagnað af HS Veitum
Miðvikudagur 13. nóvember 2013 kl. 14:27

Vilja ekki eyrnamerkja söluhagnað af HS Veitum

N listinn í Garði lagði fram tillögu á síðasta fundi bæjarstjórnar Garðs um nýtingu fjármuna vegna sölu hlutafjár í HS Veitum.

„Þeir fjármunir sem sveitarfélagið fær vegna sölu hlutafjár í HS Veitum verði nýttir til uppbyggingar á lystigarðinum við Bræðraborg og Menningarsetrinu að Útskálum. Kæmi það í hlut bæjarráðs að ráðstafa fjármagni til þessara verkefna. Lystigarðurinn, sem hefur verið nýttur sem útikennslugarður leikskólans og Gerðaskóla og er opinn almenningi, er nú í mikilli óhirðu svo brýnt er að hefjast handa sem fyrst við að koma honum í gott lag,“ segir í tillögunni.

Þá segir: „Menningarsetur prestsetra á Íslandi yrði mikil lyftistöng í ferðaþjónustu bæjarins. Töluvert efni er tilbúið til sýningar, s.s. ljósmyndir, margmiðlunarefni, viðtöl og munir. Hollvinafélag Menningarsetursins er enn starfandi og er formaður þess Hörður Gíslason“.

Tillagan var felld með 5 atkvæðum D- og L- lista en þessir listar bókuðu jafnframt eftirfarandi:

„Ekki er gert ráð fyrir að fjármunir sem sveitarfélagið fær vegna sölu hlutafjár í HS Veitum verði eyrnarmerktir ákveðnu verkefni, enda sýnir útkomuspá um rekstur ársins 2013 að tekjur sveitarfélagsins eru mun lægri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun og að þörf er á fjármagni í rekstur sveitarfélagsins. Þá ber að hafa þann fyrirvara að ekki hefur verið gengið frá sölunni og engir fjármunir í hendi ennþá.

Varðandi þau verkefni sem upp eru talin í tillögunni þá er mikið fagnaðarefni að nú hefur sveitarfélagið eignast húsið að Útskálum og í fjárhagsáætlun verður framtíðarhlutverk Útskála og uppbygging á þeim og nánasta umhverfi gerð skil. Bæjarfulltrúar D- og L-lista telja mikilvægt að á næstu árum verði lokið við endurbyggingu Útskála og umhverfi þess verði jafnframt lagfært. Varðandi lystigarðinn við Bræðraborg þá er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun að hann verði vel hirtur“.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024