Vilja banna olíuflutninga um Reykjanesbraut
Aðalfundur SSS skoraði, á fundi sínum um síðustu helgi, á þar til bær stjórnvöld að banna olíuflutninga um Reykjanesbraut og Grindavíkurveg enda unnt að koma olíunni á áfangastað sjóleiðis. Magnús Guðjónsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja flutti erindi á fundinum um umhverfismál á svæðinu. Fram kom í máli hans að grunnvatnsból við Grindavíkurveg myndu mengast mjög sennilega færi olíuflutningabíll á hliðina í nágrenni þess. Fundargestir höfðu miklar áhyggjur af stöðunni og ákveðið var að þrýsta á stjórnvöld til að banna alla umferð olíuflutningabíla um Reykjanesbraut og Grindavíkurveg. „Það er mjög stórt grunnvatnsból við Svartsengi sem er ólíkt öðrum vatnbólum á landinu að það er staðsett í hrauni. Ef olía lekur í jarðveginn sest hún í holur og göt í hrauninu. Það tekur því áratugi fyrir vatnbólið að hreinsast aftur“, sagði Magnús. Málið hafði komið til umræðu fyrr á fundinum þegar Hörður Guðbrandsson lagði fram fyrirspurn hjá umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttur. Ráðherra vísaði fyrirspurninni til dómsmálaráðuneytisins. Grindvíkingar lýstu miklum áhyggjum með ástandið þar og tíunduðu það að höfnin þar væri vel í stakk búin til að taka við olíuflutningum. Þá höfðu fundamenn einnig áhyggjur af vatnsbóli Vogamanna og var því ákveðið að láta ályktunina ná yfir Reykjanesbraut og Grindavíkurveg.