Vilja Bæjarbót inn á timarit.is

Á  fundi frístunda- og menningarnefndar Grindavíkur þann 6. febrúar var stafræn endurgerð Bæjarbótar rædd en hugmyndir eru uppi um að öll tölublöð Bæjarbótar frá árinu 1982 - 1995 verði aðgengileg á Tímarit.is. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar.
 
Nefndin fól Eggerti Sólberg Jónssyni, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs, að leita eftir samningum við annars vegar útgefanda Bæjarbótar á sínum tíma, Björn Birgisson og hins vegar Landsbókasafn Íslands um stafræna endurgerð blaðsins. 
 
„Það þarf ekki að leita eftir samningum við mig vegna þessa verkefnis. Hef heyrt óformlega af þessari hugmynd og komið því á framfæri að ég fagna henni. Vilji bæjaryfirvöld ráðast í þetta verkefni - að gera þetta efni aðgengilegt í stafrænu formi - þá gera þau það með mínu sjálfsagða samþykki,“ segir Björn Birgisson, fv. ritstjóri Bæjarbótar á fésbókarsíðu sinni.
 
Nú stendur yfir sýning í verslunarmiðstöðinni Víkurbraut 62, úr völdum fréttum Bæjarbótar.