Vilja æfingaaðstöðu á varnarliðssvæðinu
Fulltrúaráð Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hvetur umhverfisráðuneytið, Brunamálastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga til að hefja viðræður við utanríkisráðuneytið og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, um að byggja upp æfingasvæði fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og aðra viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, björgunarsveitir og Landhelgisgæslu, á varnarliðssvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Frá þessu er greint á mbl.is í dag.
Fulltrúaráð LSS telur að nú sé lag á að byggja upp til framtíðar öflugan skóla og þjálfunaraðstöðu fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn þar sem svæði fyrir verklega þáttinn sé fyrir hendi og einnig er góð aðstaða fyrir hina ýmsu kennslu t.d. skóli, íþróttahús, og önnur mannvirki sem til þess þarf.
LSS lýsir áhyggjum sínum yfir að skólamál slökkviliðsmanna verði hornreka samkvæmt framkomnum drögum að frumvarpi um byggingastofnun, í tilkynningu sem fulltrúaráðið sendi frá sér.
www.mbl.is