Vilja að lausaganga katta verði óheimil í Sandgerði
Tillaga vinnuhóps um katta- og hundahald í Sandgerðisbæ ásamt bókun umhverfisráðs á fundi ráðsins frá 17. ágúst sl. var tekin fyrir á fundi bæjarráðs Sandgerðis á dögunum. Umhverfisráð Sandgerðis vill ganga lengra í samþykktum um kattahald í bæjarfélaginu og að í reglum um kattahald standi „Lausaganga katta er óheimil í Sandgerðisbæ“ í stað: „Lausaganga katta er ekki heimil í þéttbýli og ber eigendum/forráðamönnum að gæta þess að kötturinn valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum eða raski ró manna.“
Bæjarráð Sandgerðisbæjar hefur hins vegar frestað afgreiðslu málsins þar til Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur veitt sína umsögn. Bæjarráð hvetur jafnframt stjórn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja til að flýta afgreiðslu málsins eins og unnt er.
Kettir í Sandgerði hafa verið nokkuð í sviðsljósinu síðustu mánuði þar sem kattadauði hefur verið tíður og vilja íbúar í bænum halda því fram að eitrað sé fyrir köttum í bæjarfélaginu.