Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja að fangar geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta
Sunnudagur 29. mars 2015 kl. 07:00

Vilja að fangar geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins hefur ásamt fleiri þingmönnum lagt fram frumvarp til breytinga á atvinnuleysistryggingum (bótarétt fanga). Lagt er til að ef fangi hefur stundað nám, vinnu eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga, þá teljist hann tryggður samkvæmt atvinnuleysistryggingalögum, þ.e. eins og hann hefði verið í launaðri vinnu á sama tímabili.


Meðal skilyrða þess að einstaklingar hafi rétt til atvinnuleysisbóta, er að þeir hafi fengist við launuð störf eða verið sjálfstætt starfandi á tilteknu ávinnslutímabili áður en sótt er um atvinnuleysisbætur. Flestum þeim sem afplána refsivist eða sitja í gæsluvarðhaldi stendur ekki til boða vinna, nema að mjög takmörkuðu leyti, og ávinna sér því ekki rétt til atvinnuleysisbóta meðan á vistinni stendur.

„Af þessu leiðir að oftar en ekki standa fangar utan atvinnuleysistryggingakerfisins þegar þeir ljúka afplánun og því viljum við, sem að málinu stöndum, breyta. Við  teljum að sú breyting myndi auka möguleika þeirra sem sitja af sér refisdóma, að koma undir sig fótunum og verða góðir og gildir samfélagsþegnar. Menn ættu þá einnig kost á starfsendurhæfingu, eins og þeirri sem Virk býður upp á og hefur skilað góðum árangri. Með þessu værum við að tengja nokkur kerfi saman, horfa heildstætt á málin og finna lausn til frambúðar. Við erum sannfærð um að þessi lagabreyting myndi fækka endurkomum í fangelsi landsins og það hlýtur að vera samfélagslegt markmið í sjálfu sér,“ segir Silja Dögg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024