Vilja 30 rýma hjúkrunarheimili á Garðvangi
– Aðalfundur DS hvetur sveitarfélögin til að bregðast við bráðavanda í málefnum sjúkra aldraðra.
„Aðalfundur DS hvetur sveitarfélögin á Suðurnesjum til að bregðast við bráðavanda í málefnum sjúkra aldraðra á Suðurnesjum og sameinast um samþykkta tillögu síðasta aðalfundar og einhenda sér í framhaldinu í að ná samningum við heilbrigðisráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins um endurbyggingu og frekari uppbyggingu hjúkrunarheimilisins Garðvangs þannig að þar verði hægt að reka allt að 30 rýma hjúkrunarheimili“. Þetta kemur fram í ályktun með greinargerð sem lögð var fram af stjórn DS á aðalfundi D.S. sem haldinn var í Miðhúsum í Sandgerði 22. apríl. Ályktunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum eftir töluverðar umræður.
Í greinargerð með ályktuninni segir:
Þörfin fyrir uppbyggingu á þjónustu fyrir eldri borgara á Suðurnesjum er brýn. Nú eru 57 á biðlista eftir vist á hjúkrunarheimili og allt bendir til að staðan á Suðurnesjum versni enn frekar á næstu árum.
Til að hægt sé að svara þeirri miklu þörf sem er fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma á Suðurnesjum telur stjórn D.S. lykilatriði að samstaða náist milli sveitarfélaganna á svæðinu. Þótt uppbygging hjúkrunarrýma sé alfarið verkefni ríkisvaldsins og á ábyrgð þess þá þurfa suðurnesjamenn að sameina krafta sína, marka sér sameiginlega stefnu í málefnum eldri borgara á Suðurnesjum og tryggja fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum.
Stjórn D.S. telur rökréttasta fyrsta skrefið vera að endurbyggja og stækka Garðvang og leita samstarfs við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um reksturinn. Stjórnin telur að rekstur 30 hjúkrunarrýma á Garðvangi undir stjórn HSS verði til þess að hægt verði að leysa þann bráðavanda sem upp er kominn í þjónustu við aldrað fólk á svæðinu. Þá þarf að efla og samþætta betur samstarf félagsþjónustu sveitarfélaganna og HSS. Hugsa þarf einnig til framtíðar og byrja undirbúning nýrrar 60 rýma álmu við Nesvelli.
Tillagan er í samræmi við markmið laga um málefni aldraðra og reglugerða settum á grundvelli þeirra laga, þar sem fram kemur að markmið laganna er að aldraðir geti eins lengi og unnt er búið við eðlilegt heimilislíf en þeim sé jafnframt tryggð stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf.
Taka þarf umræðuna í sveitarfélögunum á Suðurnesjum ekki seinna en nú. Snemma í haust þarf að liggja fyrir, hvort og hvað, hvert sveitarfélag getur lagt til þessa mikilvæga verkefnis, uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir sjúka aldraða á Suðurnesjum, eitt mest aðkallandi verkefnis okkar samfélags sem verður aðeins illviðráðanlegra ef ekkert er að gert. Stjórn D.S. mun boða til fundar snemma á haustdögum með sveitarstjórnarmönnum ásamt stjórn Öldungaráðs Suðurnesja.
Stjórnin telur mikilvægt að sveitarfélögin sameinist um og riti undir viljayfirlýsingu um það hvernig standa eigi að uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir sjúka aldraða á Suðurnesjum. Þannig tryggjum við best að ákvarðanir sem teknar verða í náinni framtíð af ríkisvaldinu í þessum mikilvæga málaflokki verði teknar með hagsmuni Suðurnesja að leiðarljósi.