Vilhjálmur H. Vilhjálmsson nýr stjórnarformaður KADECO
Aðalfundur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco) var haldinn nýverið. Hagnaður félagsins árið 2009 nam 170,5 milljónum króna. Heildareignir félagsins voru bókfærðar á 475,8 milljónir króna en skuldir félagsins námu 72,4 milljónum króna. Eigið fé félagsins nam því 403,4 milljónum króna í árslok.
Í fráfarandi stjórn áttu eftirtaldir sæti: Páll Sigurjónsson, Árni Sigfússon og Reynir Ólafsson. Í varastjórn sátu: Hildur Árnadóttir, Sigurður Valur Ásbjarnarson og Sveindís Valdimarsdóttir. Þróunarfélagið þakkar fráfarandi fulltrúum í stjórn góð störf í þágu félagsins, segir á vef Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.
Á aðalfundi félagsins var tekin ákvörðun um að fjölga um tvo fulltrúa í aðalstjórn og mun því ný stjórn þess verða skipuð 5 fulltrúum. Í nýrri stjórn félagsins eiga eftirtalin sæti: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Árni Sigfússon, Reynir Ólafsson, Inga Sólnes og Berglind Kristinsdóttir. Í varastjórn eru: Sveindís Valdimarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Magnea Guðmundsdóttir og Gunnar Marel Eggertsson.
Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var Vilhjálmur H. Vilhjálmsson kjörinn stjórnarformaður og Árni Sigfússon kjörinn varastjórnarformaður.
Framkvæmdastjóri félagsins er Kjartan Þór Eiríksson og eru starfsmenn þess 9 talsins.
Frá því að félagið var stofnað 24. október 2006 hefur markvisst verið unnið að því að byggja upp nýtt og öflugt samfélag. Við brotthvarf varnarliðsins töpuðust um 900 störf á Suðurnesjum og því ljóst að reisa yrði nýjar stoðir undir uppbyggingu á svæðinu. Markmið og tilgangur félagsins er að leiða þróun og umbreytingu á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli til borgaralegra nota. Í dag ber svæðið heitið Ásbrú – samfélag frumkvöðla, fræða og atvinnulífs. Þar er markvisst unnið að því að byggja upp og flétta saman rannsóknir, menntun, frumkvöðlastuðning og atvinnuuppbyggingu auk þess að laða fólk til búsetu og þátttöku í atvinnuverkefnum á svæðinu.
Þróunarverkefnið Ásbrú er einstakt í íslenskri sögu og er í reynd stærsta nýsköpunar- og endurvinnsluverkefni Íslandssögunnar. Þar hefur á þremur árum verið byggt upp veglegt mennta- og nýsköpunarsamfélag og lagður grunnur að veglegum nýsköpunarverkefnum á borð við gagnaver, sjúkrahúsi fyrir heilsuferðamenn, orkurannsóknarsetri og kvikmyndaveri auk Keilis- miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs.
Mynd: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, stjórnarformaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.