Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vildu verja þann árangur sem náðst hefur í menntun barna
Miðvikudagur 21. desember 2016 kl. 09:46

Vildu verja þann árangur sem náðst hefur í menntun barna

- segir í bókun sjálfstæðismanna vegna Fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar

Í Reykjanesbæ fjölgar íbúum hlutfallslega mest á landinu. Skjótt skipast veður í lofti; Í sveitafélagi sem glímdi við alvarleg áhrif af brotthvarfi varnarliðsins þegar 1100 Íslendingar misstu vinnu í undanfara efnahagshrunsins, blasa nú við ný og fjölbreytt atvinnutækifæri. Bærinn hefur byggt upp innviði sem geta tekið við miklum fjölda starfa og íbúa, segir í bókun sjálfstæðismanna á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ 20. des.

Í bókuninni segir einnig:
Með markvissri vinnu á síðustu 10 árum sáum við frammistöðu grunnskóla einnig sigla úr því að vera í hópi hinna lökustu á landinu í hóp þeirra bestu. Uppbygging menntunar, barnaverndar, menningar, íþrótta og þjónustu í þágu eldri borgara var áhersluefni sem styrkti bæjarbúa á erfiðum tímum. Flestum forystuverkefnum okkar í þágu íþrótta og forvarna barna hefur verið haldið áfram um leið og nú er góð framlegð af rekstri bæjarsjóðs þar sem tekjur hafa vaxið um vel á þriðja milljarð króna á þremur árum. Á sama tíma hefur vel tekist til við að halda kostnaði í skefjum og gæta aðhalds í rekstri sveitarfélagsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bjartir tímar virðast vera framundan, m.v. allar spár um aukningu í flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli og ný atvinnuverkefni eins og rafræn gagnaver, kísilver, líftækniiðnaður og menntun til starfa m.a. í gegnum Keili. En aðstæður geta breyst hratt og því er mikilvægt að viðhalda fjölbreytni í atvinnugerðum, hafa atvinnustoðirnar margrar og ólíkar.

Áherslur okkar sjálfstæðismanna fyrir þessa fjárhagsáætlun voru í þágu barna og að verja þann árangur sem náðst hefur í menntun barna okkar. Það er ánægjulegt að um þær ábendingar náðist full samstaða, svo og um fjárhagsáætlunina í heild. Þá er einnig ánægjulegt að sjá að athugasemdir okkar Sjálfstæðismanna vegna síðustu langtímaáætlunar í fjármálum hafa nánast allar verið teknar til greina og grunnar útsvarstekna og fasteignaskatta leiðréttir til samræmis. Rekstraryfirlit fyrstu mánaða 2016 benda þó til að tekjur séu jafnvel að aukast enn meira. Þá teljum við jafnframt að áætlanir meirihlutans um íbúafjölgun sé nokkuð undir líklegri þróun á næstu árum sem mun bæði hækka tekjur og útgjöld frá núverandi áætlun en um leið lækka skuldaviðmið hraðar en sett er fram í núverandi áætlun.

Eftir langt ferli hefur tekist að ná fram ákveðnum breytingum á Eignarhaldsfélaginu Fasteign sem gefur sveitarfélaginu aukið svigrúm og tíma til að sýna fram á að vel sé unnt að ná skuldaviðmiðum innan lögbundinna marka fyrir árslok 2022. Í svo ört vaxandi samfélagi eins og Reykjanesbær er getur vart talist óeðlilegt að sveitarfélagið þurfi að skuldsetja sig til byggja ný íbúðahverfi, stækka og byggja nýja leik- og grunnskóla til að mæta fjölgun íbúa eða undirbúa ný atvinnusvæði. Allt eru þetta þekkt verkefni frá síðustu árum og áratugum. Samkomulagið felur ekki í sér niðurfellingu skulda eins og stefnt hafði verið að heldur breytingu á núverandi leigusamningum og sölu eigna.

Því miður hefur enn ekki tekist að ljúka samningum við kröfuhafa Reykjaneshafnar vegna undirstöðuframkvæmda við Helguvíkurhöfn og verulegra hækkana skulda bæjarins í kjölfar hrunsins, þegar flest sveitarfélög hafa lokið við slíka samninga. Vonast er til að samningalota, sem tekið hefur nærfellt þrjú ár, skili fljótlega ásættanlegri niðurstöðu fyrir bæjarfélagið og munu sjálfstæðismenn ekki láta sitt eftir liggja til að þau mál leysist farsællega.

Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að það sé síðast árið sem aukaútsvar er lagt á bæjarbúa. Áætlunin byggir á að tekjur aukist verulega vegna fjölgunar íbúa. Það sem af er kjörtímabili hefur lítið þurft að fjárfesta í uppbyggingu innviða þrátt fyrir mikla íbúafjölgun en þó verður ekki lengur tekið við nýjum íbúum á grundvelli fyrri framkvæmda. Nýr leikskóli 2017 og framkvæmdir við nýjan grunnskóla 2018-19 eru því nauðsynlegar.

Reykjanesbær er fjölmenningarlegt samfélag þar sem hátt hlutfall íbúa er af erlendu bergi brotinn. Skólasamfélagið þarf áfram að standa með börnunum og gera þeim fært að standa jafnfætis íslensku mælandi börnum til framtíðar.
Á næsta ári á að hafa gengið í gegn sala á eignum varnarliðsins, sem skilar ríkinu 10 milljörðum kr. í hagnað. Reykjanesbær lagði mikið í sölurnar til að standa með samfélaginu, á mjög erfiðum tíma, til að mæta miklu atvinnuleysi, uppbyggingunni að Ásbrú, með leikskólum, grunnskóla og bættu umhverfi gatna og göngustíga. Við gerum kröfu um að þessi hreini hagnaður ríkisins fari í uppbyggingu innviða hér á svæðinu; samgöngukerfis á milli Ásbrúar og annarra bæjarhluta, tvöföldun Reykjanesbrautar og almenna styrkingu innviða, s.s. heilsugæslu og löggæslu, vegna örrar atvinnu og farþegaþróunar á Keflavíkurflugvelli. “

Árni Sigfússon, Magnea Guðmundsdóttir, Böðvar Jónsson og Baldur Þ. Guðmundsson.