Vildi peningana strax
Lögreglan á Suðurnesjum var í vikunni kvödd á veitingastað í umdæminu, þar sem maður var sagður láta ófriðlega. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var þar fyrir erlendur ferðamaður, ekki sáttur. Hann hafði smellt sér í spilakassa á staðnum og unnið 65 þúsund krónur.
Þar sem vinningar hærri en 50 þúsund krónur eru ekki greiddir út á viðkomandi spilastað heldur hjá Happdrætti Háskóla Íslands fékk maðurinn aðeins vinningskvittun í hendur. Með það fyrirkomulag var hann afar óánægður og vildi peningana strax. Lögregla tjáði honum að hann fengi vinninginn greiddan næsta dag, svo sem reglur HHÍ mæla fyrir um. Við það róaðist hann og hélt sína leið.