Víkurfréttir í 44 ár í dag
Í dag, 14. ágúst, eru liðin 44 ár frá því fyrsta tölublað Víkurfrétta leit dagsins ljós. Víkurfréttir hafa komið út óslitið síðan, í rúma fjóra áratugi. Fyrstu árin kom blaðið út hálfsmánaðarlega eða til ársloka 1982. Þá var blaðið gefið út af Prentsmiðjunni Grágás í Keflavík. Núverandi útgáfufyrirtæki, Víkurfréttir ehf., keypti útgáfu blaðsins um áramótin 1982–1983 og þá var strax ákveðið að gefa blaðið út vikulega fljótlega á nýju ári. Vikuleg útgáfu á blaðinu hófst svo í mars 1983 og hefur verið síðan. Á þessum tíma lætur nærri að 2.200 tölublöð hafi komið út.
Víkurfréttir eru aðgengilegar frá fyrsta tölublaði á timarit.is. Þar geta áhugasamir grúskað í sögunni og sett sig inn í tíðarandann á þessum 44 árum sem liðin eru frá fyrsta tölublaði.
HÉR MÁ SJÁ UMFJÖLLUN FRÁ 40 ÁRA AFMÆLI VÍKURFRÉTTA
Úr verslunum inn á heimili
Fyrstu árin var Víkurfréttum dreift í verslanir og þjónustufyrirtæki þar sem lesendur nálguðust blaðið. Víkurfréttir voru arftaki Suðurnesjatíðinda sem var selt í lausasölu og áskrift en útgáfu þeirra var hætt nokkrum mánuðum áður en nýja blaðið kom út. Víkurfréttir eru eitt af fyrstu fríblöðum á landinu. Fljótlega var þjónustan efld í Keflavík og Njarðvík og Víkurfréttir komu sér upp sveit blaðbera sem dreifðu blaðinu inn á heimili alla fimmtudaga. Í öðrum sveitarfélögum var blaðið áfram í verslunum og á bensínstöðvum. Best var þjónustan þó í Höfnum þar sem Jón Borgarsson og fjölskylda sáu um dreifingu blaðsins inn á öll heimili þar til fjölda ára. Skömmu síðar færðist blaðadreifingin til Íslandspósts sem dreifði Víkurfréttum inn á öll heimili og í fyrirtæki á Suðurnesjum þar til á þessu ári að Íslandspóstur hætti dreifingu á fjölpósti inn á heimili, m.a. á Suðurnesjum. Síðasta tölublaðinu var dreift í hús í mars á þessu ári en síðan þá hefurt blaðinu verið dreift rafrænt með góðum árangri og miklum vikulegum lestri.
Í sauðalitunum
Fyrstu árin máttu lesendur sætta sig við svart/hvítt blað í viku hverri og enginn kvartaði, enda tíðkaðist að blöðin væru ekki litprentuð. Dagblöðin voru svart/hvít eða prentuð í mesta lagi einn aukalit. Litprentun var í Víkurfréttum um jól og þá aðeins á útsíðum.
Árið 1994 urðu umskipti hjá Víkurfréttum. Prentun blaðsins fluttist frá Prentsmiðjunni Grágás yfir til Stapaprents. Fljótlega eftir þá breytingu var broti blaðsins breytt, síðurnar minnkaðar um 10% og litprentun hafin á um helmingi blaðsins. Stapaprent hafði yfir að ráða prentvél sem gat prentað sextán síður á örk, þannig voru átta síður í lit og aðrar átta í svart/hvítu. Allt umfram það var þó áfram í svart/hvítu. Þetta var tímafrek prentun, litasíður þurftu að vera komnar til prentunar á þriðjudegi í blaði sem kom út á fimmtudegi. Þetta þýddi í raun það að forsíðan var tilbúin tveimur sólarhringum áður en blaðið kom út.
Meiri lit, meiri lit
Á þessum tíma var ásókn í litaauglýsingar að aukast mjög, jafnframt því sem kröfur auglýsenda um að skila auglýsingum til prentunar ekki fyrr en daginn fyrir útgáfudag urðu háværar. Þetta gerðist á sama tíma og mikil tölvubylting varð í uppsetningu blaða en gríðarleg bylting varð við þá breytingu. Það var því ljóst að breytingar varð að gera á prentun blaðsins til að svara kröfum um meiri hraða við vinnslu og lengri skilafrest áður blaðið færi til prentunar. Það var því síðla árs 1999 að Víkurfréttir sömdu við Prentsmiðjuna Odda um prentun blaðsins, jafnframt var fullvinnsla blaðsins til prentunar komin til Víkurfrétta. Blaðið var því búið að koma sér upp eigin prentsmiðju, þannig þó að prentvélin var á hinum enda símalínunnar. Víkurfréttum var skilað til prentunar á svokölluðu PDF-sniði og blaðið sent til prentunar í gegnum netið.
Aftur urðu breytingar á prentun blaðsins í apríl 2011 en þá tók Landsprent við prentun Víkurfrétta. Þá var blaðið í fyrsta skipti prentað á dagblaðapappír. Landsprent prentaði blaðið þar til í mars á þessu ári þegar tekin var um það ákvörðun, í byrjun COVID-19, að hætta prentun og dreifa blaðinu bara rafrænt.
Afmælisár hjá Víkurfréttum – vefur í aldarfjórðung
Það er ekki bara prentaða útgáfa Víkurfrétta sem stendur á tímamótum og fagnar 40 árum, því netútgáfan varð 25 ára þann 15. júní síðastliðinn.
Víkurfréttir hafa verið í fremstu röð á netinu frá upphafi, vf.is er fyrsti íslenski fjölmiðillinn sem dreifði fréttum á netinu án endurgjalds. Fyrstu árin var vefurinn þó aðeins uppfærður vikulega, á fimmtudögum þegar blaðið var komið úr prentun. Um áramótin 1999–2000 var hins vegar settur aukinn kraftur í vefinn og hann uppfærður daglega með nýjustu fréttum. Aðsóknin fór að aukast umtalsvert við þetta og í dag eru Víkurfréttir á netinu mikið sóttur vefur þar sem Suðurnesjamenn sækja sér fréttir, auk þess að nálgast Víkurfréttir þar í rafrænu formi í hverri viku.
Helgarblað og sjónvarpsdagskrá ... og jafnvel tvisvar í viku
Víkurfréttir hafa prófað ýmislegt á þessari fjörutíu ára göngu. Sumt gengur og annað ekki. Þannig var Víkurfréttum um tíma dreift tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum. Dreifingu tvisvar í viku var fljótlega hætt. Víkurfréttir tóku við útgáfu blaðsins Reykjaness á sínum tíma og gáfu það út fyrir Sjálfstæðisflokkinn um nokkurt skeið eða þar til útgáfa þess var lögð niður. Þannig var Reykjanesi dreift á miðvikudögum og Víkurfréttum á fimmtudögum.
Nokkrum árum síðar keyptu Víkurfréttir vikuritið Sjónvarps-Pésann sem dreift var á Suðurnesjum. Útgáfa þess var löguð að útgáfu Víkurfrétta en var síðan fljótlega hætt, enda þrengingar á auglýsingamarkaði og ekki pláss fyrir sjónvarpsdagskrárblaðið.
Víkurfréttir hófu útgáfu á Tímariti Víkurfrétta á haustmánuðum 1999. Tímaritið kom út einu sinni það árið en sama haust var gerð tilraun með útgáfu Helgarblaðs Víkurfrétta, sem var blað sem var selt. Sú tilraun varð ekki fullreynd. Viðtökur voru góðar en umtalsverða fjölgun hefði þurft í starfsliði blaðsins til að gefa út sérstakt helgarblað. Helgarblaðstilraunin stóð í mánuð og gefin voru út þrjú Helgarblöð Víkurfrétta.
Kraftur var hins vegar settur í útgáfu Tímarits Víkurfrétta strax árið 2000 og blaðið gefið út reglulega í nokkur ár.
Víkurfréttir gáfu einnig út í mörg ár vikulegt fréttablað varnarliðsins, The White Falcon. Því var dreift á Keflavíkurflugvelli og að sjálfsögðu var það á „amerísku“ fyrir varnarliðsmenn.
Víkurfréttir gáfu út Bæjartíðindi, bæjarblað fyrir Grindavík, í nokkurn tíma.
Strandhögg á höfuðborgarsvæðinu
Víkurfréttir ehf. bættu enn einni rós í hnappagatið árið 2002 þegar Víkurfréttir hófu útgáfu á systurblaði í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi þann 31. október 2002. Blaðið var í sama broti og Suðurnesjaútgáfan. Útgáfunni var hætt í júlí 2008. Samhliða blaðinu var rekinn fréttavefur fyrir sama svæði.
Vefur um golf
Ein afurð Víkurfrétta í útgáfumálum er sérvefur um golfíþróttina sem nálgast má á slóðinni www.kylfingur.is. Þar er fjallað um golf innanlands og utan. Kylfingur.is er fimmtán ára á þessu ári.
Stærsta einstaka verkefni Víkurfrétta frá árinu 2000 til ársins 2015 var ritstýring og útgáfa Golf á Íslandi, tímarits Golfsambands Íslands. Páll Ketilsson ritstýrði blaðinu frá árinu 2002 og hélt utan um útgáfuna í öll þessi ár en hún hefur verið stór þáttur í starfsemi Golfsambandsins.
Framleiðsla á sjónvarpsefni
Víkurfréttir hafa í mörg ár framleitt sjónvarpsefni fyrir innlendar sjónvarpsstöðvar. Þannig hefur sjónvarpsstöðin Hringbraut sýnt þáttinn Suðurnesjamagasín í nokkur ár en þátturinn er framleiddur af Víkurfréttum. Þátturinn var áður sýndur á ÍNN og hóf göngu sína af alvöru þar árið 2013. Þá voru Víkurfréttir með fréttaþjónustu fyrir Stöð 2 til margra ára og sjá í dag um myndatökur fyrir bæði Stöð 2 og RÚV þegar fréttnæmir viðburðir eiga sér stað á Suðurnesjum.
Margir góðir starfsmenn
Fjölmargir hafa starfað hjá Víkurfréttum þau 40 ár sem blaðið hefur verið gefið út. Sumir hafa stoppað stutt á ritstjórninni, á meðan aðrir hafa verið lengur. Páll Ketilsson, ritstjóri, hefur verið eigandi blaðsins frá árinu 1983 og unnið við það nánast frá stofnun því hann var lausapenni hjá stofnendunum. Hilmar Bragi Bárðarson hefur starfað hjá Víkurfréttum í 32 ár. Aldís Jónsdóttir er nýhætt störfum á skrifstofu blaðsins eftir 30 ár í starfi. Stefanía Jónsdóttir lét af störfum hjá fyrirtækinu eftir 20 ára starf sem skrifstofustjóri. Fyrstu árin var Emil Páll Jónsson meðeigandi Páls að blaðinu en árið 1993 keypti Páll Ketilsson og fjölskylda fyrirtækið að fullu og Emil lét af störfum. Of langt mál er að telja upp allan þann fjölda starfsmanna sem hafa starfað við blaðið. Fjölmargir hafa komið við sögu á Víkurfréttum og notað blaðið sem stökkpall yfir á landsmiðlana.
Á næstu vikum og mánuðum munum við rifja upp ýmislegt úr 40 ára sögu Víkurfrétta með ýmsum hætti í öllum miðlum VF. Af nógu er að taka en fjöldi tölublaða frá 1980 til dagsins í dag eru um tvö þúsund og blaðsíðurnar nærri 46 þúsund.