Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Víkurfréttir bjarga löggunni frá fangelsisvist!
Mánudagur 30. apríl 2007 kl. 23:58

Víkurfréttir bjarga löggunni frá fangelsisvist!

Litlu munaði að lögreglunni á Suðurnesjum yrði stungið í fangelsi, eða í það minnsta hún sektuð, nú í kvöld. Þjóðfáninn hafði nefnilega gleymst á stöng við starfsstöð lögreglunnar í Grænási í Reykjanesbæ.

Þar blakti fáninn í myrkrinu í kvöld og ef varðstofa lögreglunnar hefði ekki fengið ábendingu frá ljósmyndara Víkurfrétta rétt fyrir kl. 23 í kvöld, þá væru lögreglumenn örugglega að undirbúa það að taka skýrslu af sjálfum sér, með kröfu um að vera settir á bakvið lás og slá, því ströng lög gilda um þá virðingu sem sýna ber þjóðfána Íslendinga og getur það varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári að brjóta fánalögin.

Í lögunum segir að fáninn skuli aldrei vera dreginn á stöng fyrir kl. 7 að morgni og sé að jafnaði ekki uppi lengur en til sólarlags, en þó skal hann aldrei vera lengur uppi en til miðnættis.

Hefði fáninn verið klukkustund lengur á stönginni í Grænási hefði verið möguleiki á því að Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, væri á leiðinni í steininn fyrir vanvirðingu á íslenska fánanum. Jóhann og hans menn sleppa hins vegar fyrir horn á orðalaginu að fáninn skuli aldrei vera uppi lengur en til miðnættis.


Varðstjóri, sem Víkurfréttir ræddu við í kvöld, sagði málið alvarlegt og þegar var mannaður lögreglubíll til að sækja fánann.

Mynd: Íslenskur fáni á stöng við lögreglustöðina í Grænási í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024