Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Víkingaheimar opna á morgun
Fimmtudagur 7. maí 2009 kl. 09:33

Víkingaheimar opna á morgun

Víkingaheimar sem hýsa Víkingaskipið Íslending og Smithsonian sögusýninguna „Víkings” verða opnaðir núna á föstudag á Fitjum í   Reykjanesbæ. Framkvæmdir hafa staðið yfir við Víkingaheima síðan  snemma árið 2007 en það var Guðmundur Jónsson arkitekt sem teiknaði húsið og verktakafyrirtækið Spöng sem byggði. Það var Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar og samstarfsfólk hans sem átti frumkvæðið að því að Íslendingur komst í varanlega höfn í Reykjanesbæ en á tíma leit út fyrir að Íslendingur yrði seldur til erlendra aðila. Síðan fyrsta skóflustungan var tekin hefur verkið verið unnið af fullum krafti þrátt fyrir ytri aðstæður. Markmið eigenda Víkingaheima er að gera svæðið að einu mest sótta ferðamannast að á Íslandi og hefur verið staðið þannig að verki frá upphafi.

Opnunin í maí er með óformlegum hætti en framkvæmdum í húsinu og uppsetningu á Smithsonian sýningunni lýkur ekki fyrr en í lok maí. Eigendum Víkingaheima fannst þó rétt að opna á þessum tímapunkti til að byrja að prufukeyra húsið og sýninguna og búa Víkingaheima undir ferðasumarið sem framundan er. Formleg opnun verður hins vegar ekki fyrr en 17. júní en þann sama dag árið 2000 lagði Íslendingur úr höfn í hina sögulegu siglingu til Ameríku.

"Okkur fannst það með öllu óhugsandi að þessi merkilega smíði myndi ekki koma heim til Íslands og verða sýnd hér, landi og þjóð til sóma. Skipið er í senn merkilegur minnisvarði þúsunda ára hefðar um leið og það minnir okkur á sigur mannsandans á efninu og náttúrunni, bæði í nútíð og fortíð. Reykjanesbær og þeir einkaaðilar sem eiga þetta verk með bænum hafa haft það að leiðarljósi frá upphafi að í kringum bátinn og sýningu Smithsonian yrði reist naust sem sómi væri að." Sagði Árni Sigfússon stjórnaformaður Íslendings ehf. "Við höfum átt frábært samstarf við Gunnar Marel sem og Elisabeth Waard sem er hér á landi til að setja upp og hafa umsjón með sögusýningu Smithsonian. Ekki er síður að þakka framkæmdastjóra Íslendings ehf., Steinþóri Jónssyni sem skilar okkur þessu glæsilega verki við þessar erfiðu efnahagsaðstæður. Þetta er þeim öllum til mikils sóma"

Gunnar Marel Eggertsson sem staðið hefur í stefni Íslendings allt frá árinu 1996 segir blendnar tilfinningar fylgja því að sjá skipið taka endanlega stöðu í Víkingaheimum. "Þetta er endirinn á siglingunni ef svo má segja. Íslendingur siglir ekki ei meir og því fylgir skrýtin tilfinning. Góðu fréttirnar eru auðvitað þær að nú geta Íslendingar jafnt sem útlendingar komið og skoðað hann og fræðst um þessa hefð okkar norrænna manna. Því Víkingar voru ekki sóðalegar ruddar eins og stundum er haldið fram heldur verkfræðilegir snillingar sem voru komnir miklu lengar í siglingum og verfræði heldur en okkar hefði órað fyrir. Það hef ég sannreynt á þessum siglingum mínum og þess vegna eru það forrétindi í mínum huga að geta miðlað þessu á þennan glæsilega hátt og gert verður hér í Víkingaheimum"

"Þetta er mikill áfangi ferðaþjónustuna hér á Suðurnesjum. Bláa Lónið hefur verið stærsti ferðamannasegull þessa svæðið, nú bætast Víkingaheimar við og við bindum miklar vonir við það. Það er ljóst að þetta mun auka straum ferðamanna á Suðurnesin um leið og það mun líklega auka viðveru þeirra á svæðinu sem er eitthvað sem allir munu njóta góðs af í ferðaþjónustunni" sagði Kristján Pálsson hjá Markaðskrifstofu Suðurnesja en hún var stofnuð um síðustu áramót til eflingar á ferðaþjónustu á svæðinu.


Íslendingur var smíðaður seint á síðustu öld af skipasmiðnum og skipstjóranum Gunnari Marel Eggertssyni en hann silgdi skipinu svo til Ameríku á landafundaárinu 2000. Siglingin vakti gríðarlega athygli bæði hér heima og ekki síður í fjölmiðlum í Bandaríkjunum og er talað um að siglingin sé eitt stærsta landkynningarverkefni sem íslendingar hafa ráðist í frá upphafi.  

Íslendingur kom við í um það bil 45 höfnum á leið sinni til New York og í lok siglingarinnar höfðu um það bil 450.000 manns komið um borð í skipið. Þar á meðal konungar, drottningar, forsetar og aðrir tignir gestir.


Í Víkingaheimum eru meðal annars munir frá víkingasýningunni Vikings - The North Atlantic Saga sem Smithsonian stofnunin í Washington setti upp árið 2000. Sú sýning fór víða um Bandaríkin í tilefni af afmæli landafundanna og vakti mikla athygli – rétt eins og sigling Íslendinga á sínum tíma.  Víkingaheimar verða opnir alla daga vikunnar frá 11:00 til 18:00 Að sögn forsvarsmanna Víkingaheima hefur verið samið við ferðaskrifstofuna Atlantic um komu 5000  gesta í Víkingaheima fyrri hluta sumars. Sá eini samningur þýðir að gestafjöldi í maí og júní er strax kominn í áætlaðan fjölda.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024