Vík rifin - illa farið hús eftir óveður síðustu ára
Í gær var hafist handa við að rífa íbúðarhúsið Vík, sem stendur við Rafnkelsstaðarveg í Garði. Húsið hefur oft komist í fréttirnar á síðustu árum vegna foks af þaki hússins.
Ein fyrsta fréttin af foktjóni á húsinu birtist á vef Víkurfrétta viku fyrir jól árið 2010. Þá mætti fjölmennt lið frá Björgunarsveitinni Ægi á staðinn til að hefta fok á þakjárni eins og sjá má í þessari frétt.
Þrátt fyrir dapurt ástand hússins var búið í því um tíma þó þakið væri illa farið.
Íbúar í nágrenninu höfðu áhyggjur af ástandi hússins og að fjúkandi þakjárn gæti valdið skaða. Þá tóku bæjaryfirvöld í Garði á málinu og gáfu húseiganda fjögurra vikna frest í upphafi árs 2015 til að lagfæra þakið á húseign sinni.
Í ársbyrjun 2015 sagði í frétt að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í eiganda hússins sem býr í því þótt það hafi í raun verið opið fyrir vatni og vindum í um þrjú ár eftir fokskemmdir á þakinu.
Svo fór að húseignin fór á uppboð og var seld á nokkur hundruð þúsund krónur. Nýr eigandi ætlaði að endurbyggja húseignina. Af því varð þó ekki. Þakið var rifið af húsinu seint á síðasta ári og þá var jafnframt staðfest að ekki væri hægt að endurbyggja húsið. Það væri ónýtt. Í gær var svo hafist handa við að rífa bygginguna, eins og sjá má á efstu myndinni í þessari samantekt.