Viðurkenning fyrir skólasamfélagið í Reykjanesbæ
Verkefni Reykjanesbæjar „Framtíðarsýn í menntamálum“ er á meðal útvalinna verkefna sem tilnefnd eru til Evrópskra verðlauna í opinberri stjórnsýslu. Verkefnið komst í gegnum fyrstu tvö þrepin, en úrvinnsla umsókna fer í gegnum fjögur þrep. Á haustmánuðum verður ljóst hvort verkefnið kemst lengra.
„Framtíðarsýn í menntamálum“ í Reykjanesbæ er verkefni sem byrjað var að vinna að árið 2011 og var samstarfsverkefni Fræðslusviðs og allra þeirra sem koma að leik- og grunnskólum í sveitafélaginu og á þjónustusvæði þess. Að sögn Guðnýjar Reynisdóttur skólaráðgjafa á Fræðslusviði, var lagt upp með það metnaðarfulla markmið, að grunn- og leikskólar svæðisins kæmust í fremstu röð á landsvísu. „Eins og mörgum er nú þegar kunnugt um hefur sú vinna skilað sér í bættum árangri nemenda í íslensku og stærðfræði" sagði Guðný.
Árið 2014 hlaut verkefnið viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri stjórnsýslu. Viðurkenningin veitti jafnframt tækifæri til að sækja um „Evrópsku verðlaunin í opinberri stjórnsýslu“ (EPSA, European Public Sector Award). EPSA eru verðlaun sem hafa verið veitt annað hvert ár síðan 2007. EPSA er hluti af stóru tengslaneti sem veitir aðgang að áhugaverðum verkefnum og mikilvægri þekkingu í opinberri stjórnsýslu þar sem tilgangurinn er fyrst og fremst að miðla upplýsingum og stuðla að bættri stjórnsýslu. Jafnframt veitir það starfsfólki á Fræðslusviði tækifæri til að kynna verkefni sín á breiðum vettvangi opinberrar stjórnsýslu í hinum ýmsu löndum Evrópu.
Í ár var auglýst eftir verkefnum sem féllu undir þemað; „Hið opinbera sem hluti af betra samfélagi“ (The Public Sector as Partner for a Better Society). „Framtíðarsýnin fellur vel að því þema og var ákveðið að sækja um. Sótt var um í apríl sl. en 266 verkefni frá 36 Evrópulöndum og Evrópusambandsstofnunum uppfylltu skilyrði fyrir umsókn. Öll þessara verkefna miða að því að þróa nýjar aðferðir til að takast á við hinar ýmsu samfélagslegu áskoranir í opinberri stjórnsýslu, s.s. heilbrigðismál, atvinnuleysi ungmenna, byggðaþróun, menntamál, félagslega aðstoð og fólksflutninga. Alls voru 64 verkefni valin úr hópi umsækjenda sem talin voru uppfylla skilyrði um bestu vinnubrögð (Best Practice Certificate) og var Framtíðarsýnin eitt af þeim," sagði Guðný.
Úrvinnsla umsókna fer í gegnum fjögur þrep. Á fyrsta og öðru þrepi eru valin úr verkefni sem þykja uppfylla skilyrði um bestu vinnubrögð. Á þriðja þrepi er síðan valinn úr enn smærri hópur verkefna sem þykja skara fram úr og valnefnd EPSA kemur í heimsókn til að kynna sér verkefnið enn frekar. Í fjórða þrepi kemur valnefndin síðan saman og kynnir tilnefningar og vinningshafana.
Verkefnið „Framtíðarsýn í menntamálum“ komst í gegnum fyrstu tvö þrepin og er von á fréttum á haustmánuðum um hvort það kemst lengra eður ei. „Hver sem framvindan verður, er þetta mikilvæg viðurkenning fyrir skólasamfélagið á Suðurnesjum og veitir því frábært tækifæri til að kynna starf sitt og um leið sannfærir okkur sem vinnum að skólamálum um að við séum á réttri leið,“ sagði Guðný að lokum.