Viðtal: Mun verja góða stöðu í málaflokknum
-segir Hafþór Barði Birgisson nýráðinn íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar
Hafþór Barði Birgisson er nýráðinn íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar en hann hefur starfað að tómstunda- og forvarnarmálum hjá Reykjanesbæ í 16 ár og þekkir því aðeins til í þeim geira auk þess að hafa menntað sig í tómstunda- og félagsmálafræðum. Hafþór starfaði áður sem tómstundafulltrúi og sá m.a. um rekstur á 88 Húsinu og Fjörheimum en hann tók við nýja starfinu í byrjun ágúst. Starfið leggst vel í Hafþór og segir hann að menntun sín og reynsla muni nýtast vel í nýja starfinu.
Mikil samskipti við íþróttahreyfinguna
– Í hverju felst starfið?
„Starfið er að einhverju leyti byggt á mínu gamla starfi og mörg verkefni áfram til staðar t.d. tengd Ljósanótt sem ég hef alltaf unnið en svo hafa önnur ný og spennandi verkefni bæst við s.s. árgangagangan, fornbílaaksturinn og fleira. Þá er starfsemi Fjörheima, 88 Hússins, Virkjunar og Innileikjagarðsins á mínum herðum auk þess sem við stöndum fyrir fræðslu og höldum fyrirlestra í grunnskólunum okkar,“ sagði Hafþór en hann er jafnframt starfsmaður Íþrótta- og tómstundaráðs sem og ungmennaráðs Reykjanesbæjar.
„Ég hef mikil samskipti við íþróttahreyfinguna og tómstundafélög því tengdu og þá hef ég umsjón með sjóðum Íþrótta- og tómstundaráðs en þeir eru: íþróttasjóður og forvarnar- og tómstundasjóður. Þá hef ég umsjón með hvatagreiðslum Reykjanesbæjar.“
Að sögn Hafþórs Barða eru engar sérstakar áherslubreytingar fyirhugaðar a.m.k. ekki fyrst um sinn. „Reykjanesbær hefur komið mjög vel út í könnunum er varðar þennan málaflokk og ég mun reyna að verja þá stöðu eins og frekast er unnt.
Ungt fólk gefur forvarnardegi góða einkunn
Meðal verkefna framundan má nefna forvarnardag ungra ökumanna sem haldinn er í september ár hvert. „Þá koma nýnemar frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja í 88 Húsið og taka þátt í fræðsludagskrá frá lögreglunni, Brunavörnum Suðurnesja og Tryggingamiðstöðinni. Verkefnið er ákaflega skemmtilegt og hefur verið árangursmetið af ungmennunum sem gefa því alltaf mjög góða einkunn. Í október gerum við könnun á sölu á tóbaki til ungmenna í góðu samstarfi við Samsuð og í bígerð er námskeið fyrir unga drengi á aldrinum 13-16 þar sem efld er samskiptahæfni en það er samstarfsverkefni velferðarsviðs, fræðslusviðs og Lögreglunnar á Suðurnesjum.”
Fátt neikvætt
Að spurður um neikvæða- og jákvæða þætti starfsins sagði Hafþór Barði fátt í raun vera neikvætt. „En ég tel að bæjarbúar þekki mætavel þá stöðu sem er uppi og mitt hlutverk verður líklega að reyna að halda þeim fjármunum sem hafa verið settir í málaflokkinn. Það er allavega alveg ljóst að ekki er nein aukning á fé. Þetta hljóta allir að skilja sem hafa fylgst með fréttum af Reykjanesbæ undanfarið ár. Ef ég á að nefna eitthvað jákvætt vil ég nefna nýlegan fund með forsvarsmönnum pílufélags Reykjanesbæjar en þar þótti mér afar vænt að heyra af því endurbætur félagsaðstöðunnar var unnin í sjálfboðavinnu þar sem leitað var eftir styrkjum hjá fyrirtækjum fyrir því sem upp á vantaði“, segir Hafþór sem er þakklátur fyrir að fá áfram tækifæri til að starfa fyrir Reykjanesbæ á þessum skemmtilega og þarfa vettvangi.