Fréttir

Viðsnúningur í rekstri Voga
Miðvikudagur 2. maí 2018 kl. 13:33

Viðsnúningur í rekstri Voga

Fulltrúar E-listans bókuðu á síðasta bæjarstjórnarfundi Voga, þann 25. apríl sl. um góðan rekstur sveitarfélagsins. Tilefnið var að nú hefur sveitarfélagið verið rekið hallalaust allt kjörtímabilið á sama tíma og haldið hefur verið áfram með uppbyggingu og ýmsu viðhaldi sinnt.

Bókun listans var svohljóðandi:
Nú er að ljúka kjörtímabilinu 2014-2018.
Rekstur sveitarfélagsins hefur farið batnandi á tímabilinu og má geta þess að viðsnúningur frá síðasta heila rekstrarári síðasta kjörtímabilsins er umtalsverður.
Árið 2013 var reksturinn neikvæður um 19 milljónir, árið 2014 tók E-listinn við og bar ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins frá júní það ár, og var niðurstaða ársins jákvæð um 16 milljónir, jákvæð um 30 milljónir 2015 og jákvæð um 26 milljónir 2016.
Á nýliðnu ári er rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins jákvæð um 44 milljónir.
Þessu höfum við náð þrátt fyrir að hafa unnið ötullega að uppbyggingu sveitarfélagsins með endurgerð gatna og nýframkvæmdum á hinu svokallaða miðbæjarsvæði sem og töluverðum viðhaldsframkvæmdum.
Við fögnum þessum árangri og færum þakkir bæjarstjóra, skrifstofustjóra, forstöðumönnum og starfsmönnum sveitarfélagsins öllum því án góðs samstarfs allra aðila næst ekki svo góður árangur sem raun ber vitni. Þess má einnig geta að E-listinn hefur verið með hreinan meirihluta í Vogum undanfarin fjögur ár.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024