Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Viðskipti Vísis hf og Síldarvinnslunnar ganga í gegn
Laugardagur 17. desember 2022 kl. 10:26

Viðskipti Vísis hf og Síldarvinnslunnar ganga í gegn

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Vísis hf. í Grindavík og Síldarvinnslunnar á Neskaupstað. Eins og fram kom í frétt Víkurfrétta sl. sumar, þá ákváðu eigendur útgerðarfyrirtækisins Vísis hf. í Grindavík, að skipta á hlutabréfum Vísis fyrir hlutabréf í Síldarvinnslunni á Neskaupsstað. Viðskipti af þessari stærðargráðu þurfa alltaf að fara í gegnum samkeppniseftirlitið og þann 1. desember voru þau samþykkt.

Að sögn Péturs Pálssonar, forstjóra Vísis, líta eigendur Vísis á þetta sem frábært tækifæri fyrir báða aðila en hið nýja fiskvinnsluhús Vísis, sem er með þeim flottari á landinu, getur afkastað meiru en það hefur gert og með þessum viðskiptum mun mikið af þeim bolfiski sem Síldarvinnslan dregur á land, fara í gegnum vinnsluna í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vísir hf. hefur til þessa ekki verið viðriðið uppsjávarveiðar en þar er Síldarvinnslan sterk og eins hefur síðarnefnda fyrirtækið verið að færa sig inn á fiskeldisslóðirnar. Stækkunarmöguleikarnir eru því miklir: „Kvótastaða samstæðu Síldarvinnslunnar verður gríðarlega sterk en bæði á Síldarvinnslan mikinn bolfiskkvóta en einnig uppsjávarkvóta. Þar höfum við hvergi komið nálægt og því er þetta spennandi fyrir okkur líka. Eins hefur Síldarvinnslan verið að hasla sér völl í fiskeldi og það er sömuleiðis nýtt fyrir okkur en við getum afkastað miklu meiru í vinnsluhúsunum okkar og lítum þessa breytingu því mjög björtum augum.“

Verða einhverjar breytingar?

„Nei, það mun nákvæmlega ekkert breytast við þessi viðskipti nema við munum bara styrkjast og eflast. Allt okkar starfsfólk heldur áfram og stjórnendur verða þeir sömu eftir sem áður hér í Grindavík, eini munurinn að Vísir hf. verður dótturfélag Síldarvinnslunnar. Vísir hf. hefur alltaf stutt myndarlega við bakið á íþróttalífinu í Grindavík og menningunni og það verður engin breyting á því,“ sagði Pétur að lokum.