Viðskiptaráðherra: Ekki raunhæft að koma í veg fyrir álver í Helguvík
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, efast um að það sé raunhæft markmið að koma í veg fyrir að álverið í Helguvík rísi. Þetta sagði hann nú nýverið í viðtali við Viðskiptablaðið. Í sama blaði sagði Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, að betra tilefni sé til álversframkvæmda í Helguvík nú en oft áður við upphaf slíkra framkvæmda.
Björgvin segir í viðtalinu aðspurður m.a. um Helguvík: „Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að við förum aðrar leiðir í atvinnusköpun og orkunýtingu en að fjölga álverum. Ég er baráttumaður fyrir því sem einhverjir kalla grænt hagkerfi. Á hinn bóginn efast ég um að það sé raunhæft markmið að koma í veg fyrir að álverið í Helguvík rísi. Það álver var komið svo langt í undirbúningi fyrir síðustu þingkosningar. Það var búið að gefa út öll leyfi, það var byrjað að afla orkunnar og það var komið í skipulagsferli hjá öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum og þau berjast fyrir þessu. Til að koma í veg fyrir að álver rísi þarf bókasaflega að setja lög á Alþingi til að rífa þetta allt úr sambandi.. Það er hins vegar allt annað mál að menn geta stýrt því hvenær farið verður í álversframkvæmdirnar.“
Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, segir í Viðskiptablaðinu að betra tilefni sé til álversframkvæmda í Helguvík nú en oft áður við upphaf slíkra framkvæmda.. Einnig virðist vera hér um að ræða minni framkvæmd en oft áður sem þar að auki dreifist yfir nokkuð langan tíma.
„Okkar afstaða er að það skiptir öllu máli að um sé að ræða arðbært verkefni eins og á við um aðrar framkvæmdir. Það er mikilvægt að þetta sé gert í eðlilegum samkeppnisrekstri og þá er ekki ástæða til að fetta fingur út í það. Ef stjórnvöld óttast þenslu er eðlilegra að draga úr opinberum framkvæmdum á meðan,“ sagði Edda Rós.
Að mati forráðamanna Norðuráls mun uppbygging álversins í Helguvík ekki valda óæskilegri þenslu í samfélaginu og fjarri lagi sé að tala um hættu á kollsteypu. Efnahagsleg áhrif verða lítil á þessu ári og þeirra fari ekki að gæta fyrr en 2001 og 2010. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting vegna álvers Norðuráls í Helguvík verið 12-15 milljarðar króna í ár.