Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Viðræðurnar hafa gengið bæði hægt og illa
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
miðvikudaginn 3. júlí 2019 kl. 09:44

Viðræðurnar hafa gengið bæði hægt og illa


Undanfarna mánuði hefur Starfsgreinasamband Íslands (SGS), ásamt Eflingu stéttarfélagi, átt í kjarasamningsviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna félagsmanna sinna sem vinna hjá sveitarfélögum, öðrum en Reykjavíkurborg.

„Það er skemmst frá því að segja að viðræðurnar hafa gengið bæði hægt og illa. Sérstaklega steytir á í lífeyrismálum en sveitarfélögin hafa ekki staðið við fyrirheit um að jafna lífeyrisréttindi milli félagsmanna BSRB og félagsmanna SGS og Eflingar innan ASÍ,“ segir í fréttatilkynningu sem Starfsgreinasamband Íslands og Efling stéttarfélag hafa sent frá sér.

„Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nú þegar samið við einstök sambönd og stéttarfélög um að þeir félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum, skuli fá greiddar 105.000 kr., m.v. fullt starf, þann 1. ágúst nk. sem greiðslu inn á væntanlegan samning. Þegar SGS og Efling kröfðust þess að félagsmenn þeirra hjá sveitafélögunum fengju líka umrædda greiðslu var því alfarið hafnað af hálfu samninganefndar sveitafélaga með þeim rökum að SGS og Efling væru búin að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er með öllu ólíðandi. Það er samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga til vansa að skilja sína lægst launuðu starfsmenn eftir eina úti í kuldanum. Starfsgreinasamband Íslands og Efling trúa því ekki fyrr en á reynir, að sveitarstjórnarmenn hyggist koma svona fram við sitt frábæra starfsfólk.

Starfsgreinasambandið og Efling skora á sveitarfélögin að semja við SGS og Eflingu um sömu greiðslur og aðrir munu fá þann 1. ágúst nk. eða taka að öðrum kosti sjálfstæða ákvörðun um að greiða sínu fólki inn á væntanlegan kjarasamning, til jafns við annað starfsfólk,“ segir í tilkynningunni.