Viðræður um sólarkísilvinnslu í Grindavík
Viðræður um uppsetningu og rekstur á sólarkísilvinnslu í Grindavík eru komnar á skrið eftir að fulltrúar verkefnisins funduðu með bæjarstjórn Grindavíkur og skoðuðu aðstæður í Grindavík á dögunum.
„Áform eru uppi um að reisa í fyrsta áfanga sólarkísilvinnslu í tveimur áföngum. Orkuþörf vegna hvors áfanga er um 50 megawött, fyrri áfangi yrði tekinn í notkun 2012 eða 2013 og síðari hlutinn, sem yrði nákvæmlega eins, kæmist í gagnið tveimur til þremur árum síðar. Varanleg störf vegna fyrri hlutans eru um 150 og þegar báðir áfangarnir verða komnir í gang má reikna með um 250 störfum í verksmiðjunni. Þá má gera ráð fyrir að afleidd störf vegna vinnslunnar verði á annað hundrað,“ segir Jóna Kristin Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.
„Hér er um alþjóðlegt fyrirtæki að ræða sem ræður yfir öflugri þekkingu á þessu sviði og vill setja upp vinnslu á hagkvæmum stað, hvort heldur hérlendis eða annars staðar. Búist er við miklum uppgangi á þessu sviði varðandi virkjun sólarorku með kísilflögum og er félagið eitt af leiðandi aðilum á þessu sviði á heimsvísu,“ segir Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri Strokks hf., sem er samstarfsaðili að verkefninu.
Viðræður við HS Orku hf. hafa einnig átt sér stað og þar voru aðilar áhugasamir um framgang verkefnisins. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að afhenda orku á næstu þremur árum, gangi skipulagsvinna og rannsóknir við orkuvinnslusvæðið við Eldvörp eftir. Afhending til sólarkísilvinnslunnar mun ekki hafa áhrif á afhendingu orku til álvers í Helguvík, komi til þess.
Áhugi á að reisa sólarkísilvinnslu kemur í framhaldi af auðlindastefnu Grindavíkurbæjar sem unnið hefur verið að síðustu mánuði en þar er lögð áhersla á að allar auðlindir í lögsögu Grindavíkur skuli falla undir auðlindastefnu bæjarfélagsins. Auðlindastefnan byggir á því að nýting sé besta verndin en gæta verður þess að auðlindin raskist sem minnst og verði til staðar fyrir komandi kynslóðir. Sólarkísilvinnsla verður því reist með tilliti til umhverfisins og náttúrunnar, byggingar þurfa að falla vel að umhverfinu og mengunarvarnir verða samkvæmt ströngustu kröfum hérlendis.
„Við höfum mikinn áhuga á því að reisa sólarkísilvinnslu á Íslandi og okkur sýnast aðstæður hér í Grindavík með því besta sem við höfum séð hérlendis. Að geta takmarkað alla línulögn og jafnvel afhent orku á hagkvæmari hátt er jákvætt, bæði hvað varðar kostnað og ekki síður umhverfismál," segir Eyþór Arnalds.
„Sólarkísilvinnslan losar um 40.000 tonn af C02 á ári. Við teljum okkar geta fengið heimildir fyrir þeirri losun enda er þetta frekar lítið miðað við stóriðju. Einnig er áhugavert að koma til viðræðna við bæjarfélag sem setur fram mótaða auðlindastefnu á fyrsta fundi þar sem skýrð er aðkoma bæjaryfirvalda að slíku verkefni. Þar kom fram að stefnt skuli að því að nýting orku nærri iðnaðarsvæðum skuli nýtt á þeim svæðum, enda ætti hagkvæmni slíkrar afhendingar að vera töluverð,“ segir Eyþór ennfremur.
Ef af verður rís sólarkísilvinnslan á nýju iðnaðarsvæði nærri Grindavík, félagið mun koma með hráefni til vinnslunnar í allt að 10.000 tonna skipum sem geta nýtt höfnina í Grindavík.
„Það er kærkomið að fá aukna nýtingu á höfnina sem hefur misst töluverða skipaumferð eftir að bræðslan hætti rekstri fyrir nokkrum árum. Áætlanir eru uppi um að sólarkísilvinnslan setji upp löndunaraðstöðu og flytji efnið daglega til sín. Fullunninn sólarkísillinn verður svo fluttur með gámum erlendis," segir Petrína Baldursdóttir, formaður bæjarráðs Grindavíkur.
„Við stefnum að því að skrifa undir skuldbindandi samning um uppbyggingu um mitt þetta ár svo undirbúningur geti hafist af fullum krafti en ræða þarf m.a. orku-, lóða- og hafnarmál." segir Eyþór Arnalds.
Unnið er að samstarfsyfirlýsingu á milli aðila um samningaferli og ætti að skýrast á næstu mánuðum hvort af þessu verkefni verður. Ljóst er að uppbygging sólarkísilvinnslu og orkumannvirkja kallar á miklar framkvæmdir og aukna atvinnu í Grindavík og á Reykjanesi og því leggur Bæjarstórn Grindavíkur mikla áherslu á að koma þessu verkefni í gang sem allra fyrst.