Viðræður um flugvallarlest í fullum gangi
Öll sveitarfélög á Suðurnesjum hafa nú samþykkt samkomulag við Þróunarfélag um fluglest varðandi skipulagsmál hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur. Sambærilegt erindi er til afgreiðslu hjá Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar, stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögunum Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hraðlest myndi stytta leiðina frá flugvellinum til Reykjavíkur um fimmtán til átján mínútur. Áætlað er að framkvæmdin taki alls sjö ár og ljúki árið 2024. Ráðgert er að lestin verði fjármögnuð af einkaaðilum, en aðilar verkefnisins eru Kadeco - Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Landsbankinn, EFLA verkfræðistofa, Ístak, Reitir og Deloitte, segir í fréttinni.