Viðhorfskönnun samgönguyfirvalda einföldun á flóknu máli
Átta af hverjum tíu flugfarþegum í innanlandsflugi segjast munu notast minna við flugsamgöngur ef innanlandsflugið verður flutt úr Vatnsmýrinni í Reykjavík og til Keflavíkur. Þetta eru niðurstöður viðhorfskönnunar meðal 570 farþega í innanlandsflugi á leið til Reykjavíkur. Eysteinn Jónsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra og einn forsvarsmanna samtakanna um flutning innanlandsflugsing til Keflavíkur, segir viðhorfskönnunina vera einföldun á ákaflega flóknu máli og í raun ekki marktæka. „Sem dæmi um hversu vitlausar kannanir er hægt að gera, þá minnist ég þess að í aðdraganda byggingu Hvalfjarðaganga hafi kannanir sýnt að stór hluti fólks ætlaði aldrei að nota göngin en raunin var allt önnur eins og við öll þekkjum,“ sagði Eysteinn í samtali við Víkurfréttir.
Í téðri viðhorfskönnun kemur einnig fram að flugfarþegar fari að meðaltali um 12-15 ferðir til höfuðborgarinnar á ári, þar af um 7-9 ferðir með flugi.
„Það er margt annað sem taka þarf í reikninginn þegar verið er að ræða um staðsetningu og starfsemi innanlandsflugsins. Mestu máli skiptir fyrir okkur Suðurnesjamenn, eins og staðan er í dag, að Keflavíkurflugvöllur og Flugstöðin verði rekin sem eitt fyrirtæki og fái sveigjanleika til þess að sækja fram á nýja markaði, til þess þarf Keflavíkurflugvöllur heimildir m.a. til að haga sinni verðlagningu með frjálsari hætti en verið hefur og millifærslu peninga frá Keflavíkurflugvelli til reksturs innanlandsflugs með miðstöð í Vatnsmýrinni þurfi að stöðva. Ekki gengur lengur að flugstarfsemin í Keflavík borgi Flugmálastjórn Íslands 800 milljónir á ári til reksturs innanlandsflugs,“ sagði Eysteinn. „Kostnaður ríkissjóðs við rekstur innanlandsflugvalla þarf að vera uppi á borðinu, ef svo væri, efast ég ekki um að annað hljóð kæmi skrokkinn frá landsbyggðinni. Ég tel að nýta mætti þetta fé til annara mikilvægari verka til að efla búsetu á landsbyggðinni, betri vegsamgöngur, aukin heilbrigðisþjónusta og efling háksólamenntunar á landsbyggðinni eru verkefni sem nýta mæti peninganna til.“
Með sameiningu Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvarinnar telur Eysteinn að einn þeirra fjölmargra markaða sem hægt væri að sækja á væri innanlandsflugið. „Þá myndum við láta samkeppnina ráða. Suðurnesjamenn verða að berjast fyrir því að Keflavíkurflugvöllur og Flugstöðin verði rekin sem eitt fyrirtæki og sæki á nýja markaði hvort sem það er fraktflug, innanlandsflug eða alþjóðlegt flug. Ef það fyrirtæki fengi að sækja fram þá myndi það þýða aukin störf og það er mikilvægt atriði að halda úti samkeppnishæfum alþjóðaflugvelli, ekki síst fyrir alla ferðaþjónustu í landinu,“ sagði Eysteinn.
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, sagði í Fréttablaðinu í dag að það hefði ekki verið á dagskrá hjá Samfylkingunni að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur, nema til verulegra samgöngubóta komi þar á milli.