Viðhaldsaðgerðir á tengivirkjum á Suðurnesjum
Aðfaranótt föstudags var farið í nauðsynlegt viðhald í tengivirkjum Landsnets á Suðurnesjum. Aðeins er um eina línu að ræða til Suðurnesja og því erfitt að finna tíma sem hentar til viðhalds en það mun vonandi breytast með Suðurnesjalínu 2, að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets.
„Aðgerðin gekk mjög vel en á meðan á þessu stóð voru virkjanir í Svartsengi og Reykjanesi aftengdar flutningskerfinu. Að öðru leiti var allt álag á svæðinu aðflutt um Suðurnesjalínu 1 og spenni 2 á Fitjum inná dreifikerfi HS Veitna. Af þessum sökum þurfti að skerða notendur á svæðinu en aðgerðin fór fram að nóttu þegar notkun er minnst til að lágmarka áhrif á notendur,“ sagði Steinunn.