Víðfeðmt netvandamál í Garði kom Símanum á óvart
Bæjaryfirvöld í Garði munu funda í vikunni með Mílu vegna netsamands í sveitarfélaginu. Eins og fram hefur komið í fréttum Víkurfrétta er mikil óánægja í Garði með slök gæði á sjónvarpsþjónustu í gegnum netsambönd. Um 200 heimili hafa verið skráð á lista þar sem vandræði koma upp með spilun á sjónvarpsefni sem horft er á í gegnum nettengingar.
Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar Garðs, átti í gærdag samtal við fulltrúa Símans og Mílu í kjölfar bylgju óánægjuradda sem heyrðust í Garði um nýliðna helgi. Í samtali við Víkurfréttir sagði Einar Jón að von væri á betri tímum er varða gæði netsambanda í Garðinum.
„Hjá Símanum hefur verið í undirbúningi stækkun á tengingu fyrir Garðinn sem á að gera að verkum að gæði munu lagast og þessi vandamál hverfa vonandi. Það kom fulltrúum Símans á óvart hve víðfeðmt vandamálið var og hafa þeir því sett málið í forgang,“ segir Einar Jón.
Þá eru fulltrúar Mílu að skoða málin fyrir Garðinn og eru framkvæmdir á áætlun í sumar í hluta bæjarins. „Við munum funda í vikunni með fulltrúum Mílu og yfirfara þessar áætlanir og skoða hvort og þá hvernig hægt verður að gera enn betur og þá fljótt,“ sagði Einar Jón jafnframt.
„Gott netsamband er mikilvægt og við munum þrýsta á endurbætur þannig að við fáum góða þjónustu“.