Video: Yfirgefa landið og vilja tryggja sér betra líf
Ólafur Árni Torfason og Guðný Ósk Jensen seldu innbúið sitt á tveimur dögum með auglýsingum á netinu. Þau eru nýlega flutt út úr nýrri íbúð í raðhúsi í Dalshverfi Reykjanesbæjar og sl. föstudag fóru þau með bílinn sinn til fjármögnunarfyrirtækisins sem veitti þeim myntkörfulánið og skiluðu bílnum og lyklunum. Klukkan 04:00 aðfaranótt sl. laugardag hringdi vekjaraklukkan svo í síðasta skipti hjá þeim á Íslandi. Þau vöktu nokkurra mánaða dóttur sína, Kristínu Sigrúnu, tóku ferðatöskurnar og létu skutla sér á flugvöllinn. Þau eru farin frá Íslandi og flutt til Noregs þar sem þau vilja tryggja litla barninu sínu betra líf en á Íslandi.
Þau Ólafur Árni og Guðný Ósk eru liðlega tvítugt par. Guðný er fædd og uppalin í Keflavík en Ólafur er frá Blönduósi en hefur búið í Keflavík í um áratug. Þau hafa verið par í tvö ár, keyptu sér bifreið með tveggja milljóna króna bílaláni, svokölluðu myntkörfuláni. Þau ætluðu að koma sér þaki yfir höfuðið með því að fara leið sem fólki var boðið upp á, að leigja eignina í ákveðinn tíma en kaupa svo og þá myndi leigugreiðslan ganga upp í kaupin sem útborgun. „Það dugði skammt,“ sagði Ólafur Árni í samtali við Víkurfréttir. Fjölskyldan nær ekki endum saman á Íslandi og skuldirnar hlaðast upp.
- Og nú eruð þið á leiðinni til Noregs. Af hverju?
„Það er engin framtíð hérna lengur. Alla vega ekki næstu árin. Launin duga ekki til að reka fjölskyldu, kaupa hús og eiga bíl. Ég var í góðri vinnu sem vaktstjóri hjá Securitas í Reykjanesbæ, en það hafði bara ekkert að segja. Launin duga ekki til og það hefur allt hækkað. Þá er ekkert komið til móts við ungt eða gamalt fólk á Íslandi í dag. Við sjáum bara ekki að við getum komið okkur almennilega fyrir hér á landi eða séð fyrir barninu“.
Ólafur var í vinnu hjá Securitas og Guðný er í fæðingarorlofi en saman eiga þau dótturina Kristínu Sigrúnu sem fæddist á síðasta ári. Fölskyldan átti 4-5 ára gamlan bíl og ætlaði að koma sér þaki yfir höfuðið. Þau segjast ekki hafa stofnað til margra annarra skulda. Hvers vegna gengur dæmið þá ekki upp?
„Gott dæmi er að horfa á bílalánið. Það stendur í 5,4 milljónum króna í dag á sama tíma og bifreiðin er verðmetin á 1,8 milljónir króna. Bílalánið var upphaflega tvær milljónir króna. Við fengum frystingu á bílalánið en horfðum á það hækka jafnt og þétt,“ segir Ólafur og Guðný bætir við: „Þó svo við séum með lánið í frystingu þá er mánaðarleg afborgun 50.000 krónur en væri rétt tæpar 90.000 krónur ef við værum ekki með það í frystingu“. Þau bentu á að launin væru ekki há og að allt hafi hækkað. Afborganir af húsnæðinu sem þau hugðust kaupa voru 115.000 krónur á mánuði og þá á eftir að nefna alla fasta mánaðarreikninga eins og hita, rafmagn og síma. „Þá eru launin bara farin hjá okkur báðum þegar allt er tekið saman,“ segir Ólafur.
YFIRDRÁTTUR HLEÐST UPP
- Það er þá ekkert eftir til matarinnkaupa?
„Nei, það hafa safnast upp yfirdráttarheimildir og Vísa-reikningar. Það verður sett stopp á það líka og þá vitum við ekkert hvað á að gera. Það er ekkert hægt að leita til fjölskyldu eða vina endalaust. Þau eru í raun öll í sömu stöðu“.
- Hvernig voru þá jólin?
„Þau voru bara róleg og þægileg. Ég verð að segja að við Íslendingar höfum kannski ágætt af því að draga okkur aðeins í hlé með þessi læti“.
- Það má orða það svo að þið séuð í raun gjaldþrota?
„Já. Það er í raun ekkert hægt að orða það betur“.
- Hvernig hafði þið verið að snúa ykkur í þessu máli. Hafið þið reynt að semja eitthvað eða fá niðurfellingu skulda eða er staðan sú að þið verðið að fara úr landi?
„Lánafyrirtækin eru ekkert að koma til móts við fólk. Þeir bjóða frystingar og fleira en það sem þú færð út úr því eru 2-3 góðir mánuðir í viðbót en svo færðu það í bakið örlítið seinna“.
- Er ekki óþægilegt að vera með lítið barn og vera í þessari stöðu?
„Jú. Aðal ástæðan fyrir því að ég vil fara til Noregs er að eiga betri framtíð fyrir hana. Ég vil ekki bjóða henni upp á fábreytt líf. Ég vil að hún fái allt sem hún á skilið. Það gengur ekki hérna á Íslandi,“ segir Guðný.
- Hvernig eru viðbrögðin sem þið hafið fengið frá bönkum eða lánastofnunum sem þið hafið leitað til?
„Það er í raun ekkert hægt að gera. Við erum ekkert í verstu málunum og við gerum okkur grein fyrir því að það eru margir í verri málum en við. Það er bara ekkert komið til móts við fólk, það er staðreynd,“ segir Ólafur.
SKULDA 8-9 MILLJÓNIR KRÓNA
Sameiginlegar skuldir þeirra Ólafs og Guðnýjar eru á milli 8-9 milljónir króna og fara stighækkandi, að eigin sögn. Þau hafa hugsað það í þó nokkurn tíma að fara út til Noregs, en alltaf slegið hugmyndinni á frest. Guðný þekkir aðeins til í Noregi en hún bjó þar í þrjú ár og hafði flutt aftur heim til Keflavíkur fyrir tveimur árum síðan.
- Hvað bíður ykkar í Noregi?
„Að stórum hluta óvissa. Við erum ekki að fara í neitt lúxuslíf. Það bíður eftir okkur íbúð en ættingar Guðnýjar og vinafólk mitt býr þarna úti og hefur hjálpað okkur mikið. Það hefur gert gæfumuninn,“ segir Ólafur.
- Hvað með atvinnu?
„Það er næga atvinnu að hafa fyrir þá sem nenna að vinna. Norðmenn fara fram á að fólk tali norsku og þú færð ekki vinnu, hvort sem það er í verslun eða framleiðslu, nema að tala tungumálið. Mér finnst það mjög gott og fyrsta sem ég geri þarna úti er að læra norsku,“ segir Ólafur. Guðný er með forskot á hann og talar norsku eftir að hafa búið úti í þrjú ár.
- Hvenig tekur kerfið á móti ykkur úti?
„Það tekur allt tíma eins og hér heima,“ segir Guðný. „Ég er með norska kennitölu, þannig að það tekur styttri tíma fyrir mig. Það getur tekið allt að þrjá mánuði að komast inn í kerfið og fá þær bætur sem maður á rétt á. Það eina sem við treystum nú á eru barnabætur og svo líður ákveðinn tími þar til fólk kemst á atvinnuleysisbætur, eins og hér á Íslandi“.
Þau Ólafur og Guðný treysta á peninga úr fæðingaorlofi Guðnýjar næstu tvo mánuði og viðurkenna að þau séu að fara út í talsverða óvissu. Þau segjast hins vegar ekkert betur sett með að sitja heima á Íslandi meðan ekkert gerist.
ÚT AÐ SAFNA FYRIR SKULDUM
- Hvað verður með ykkar skuldir hérna heima. Bíður ykkar að verða gjaldþrota?
„Það er nú einu sinni þannig að maður þarf að borga fyrir að verða gjaldþrota. Það þarf að borga um 200.000 krónur fyrir það að eiga ekki pening,“ segir Ólafur. Hann á ekki von á að bankastofnanir leggi í kostnað við að gera fjölskylduna gjaldþrota, enda sé ekki í neinar eignir að sækja hjá fjölskyldunni. Guðný bætir hins vegar við að það sé engin áætlun hjá fjölskyldunni að stinga af frá skuldum. Það gangi ekki. Förin til Noregs sé hins vegar í þeim tilgangi að eiga betri fjárhagslega möguleika að greiða niður skuldir fjölskyldunnar. „Við ætlum ekki að stinga af og vona að skuldirnar hverfi. Þær gera það ekki,“ segir Guðný.
„Við viljum einhvern tímann koma aftur heim. Það er nú bara svoleiðis og þá viljum við koma með hreinan skjöld,“ segir Ólafur en segir að eins og staðan sé í dag þá nái fjölskyldan ekki endum saman, hvað þá að greiða niður skuldir. Þau segja að núna þurfi fjölskyldan að hugsa um það að hafa nóg í sig og á.
- Aðgerðir stjórnvalda eru þá ekki að gera neitt fyrir fólk í ykkar stöðu?
„Ég hef ekki orðið var við neitt, ekki vott,“ sagði Ólafur og finnst stjórnmálamenn vera í sandkassaleik á þingi og að þar gerist ekki neitt.
- Hvað viljið þið segja við yfirvöld?
„Það er kannski lítið sem þau geta gert, maður gerir sér alveg grein fyrir því. Það þarf samt að líta niður til litla mannsins. Það eru ekki allir sem skulda rosalega mikið, en samt of mikið til að geta fleytt sér áfram. Það þarf að horfa til þess líka,“ segir Guðný.
UNGT FÓLK YFIRGEFUR LANDIÐ
- Hvað segja fjölskyldur ykkar og vinir yfir því að þið séuð að fara af landi brott?
„Það eru allir vængbrotnir,“ segir Guðný og Ólafur bætir við: „Það er rosalega leiðinlegt að vera að fara frá öllum og þau örugglega mjög svekkt yfir því að við séum, innan gæsalappa, að stinga af. Þau skilja þetta rosalega vel, enda margir í sömu stöðu og við og hafa verið að spá í að gera það sama“.
- Vitið þið um marga sem eru að skoða þennan möguleika?
„Það er mikið af fólki á okkar aldri sem er komið með börn og hafa þann möguleika að standa upp og fara. Ég held að þetta sé bara byrjunin og það á mikið af ungu fólki eftir að láta sig hverfa og fara“.
- Eruð þið reið?
„Frekar svekkt. Það þýðir ekkert að hanga yfir þessu og kvarta og kveina. Þú færð ekkert út úr því. Reyndu þá að gera eitthvað. Við erum að reyna. Það verður ekkert betra ef við sitjum áfram hér heima í skuldunum okkar“.
HÆRRI LAUN OG MINNI SKATTAR Á NAUÐSYNJAR
Þau segja að Noregur sé svipað Íslandi að það sé allt dýrt þar, en á móti komi að þar er fólk með hærri laun og það sé gert ráð fyrir því að fólk þurfi að borða, kaupa föt og gera dags daglega hluti. Áætlunin sé að vinna sér inn norskar krónur sem séu helmingi verðmætari en þær íslensku og nota þær til að greiða niður skuldir á Íslandi. Það verði hins vegar að koma í ljós hvernig þær áætlanir gangi eftir.
Þeim Ólafi og Guðnýju hugnast einnig skattlagning Norðmanna á nauðsynjum. Þannig séu nauðsynjar fyrir börn og nauðsynleg matvara skattlögð minna en til dæmis gos og snakk. Skatturinn sem ríkið verði af á nauðsynjavörunum sé lagður á ónauðsynjar. „Þetta er hugsun sem mætti taka upp hér heima, að færa til álagninguna í stað þess að leggja á allt. Það eru allir að sligast undan því,“ segir Ólafur.
BÚSLÓÐIN SELD Á BARNALANDI
Hér heima á Íslandi seldu þau alla búslóðina með auglýsingum á netinu. Búslóðin var auglýst á Barnalandi og það tók tvo daga að selja hana. Það eina sem þau taka með sér voru hlutir sem setja mátti í kassa og var staflað á vörubretti sem sent var utan með skipi. Annars munu þau nýta sér það sem vinir og ættingjar í Noregi hafa safnað saman. Í íbúðina voru komin rúm fyrir fjölskylduna og einhver húsgögn, það allra nauðsynlegasta.
Fjölskyldan er að flytja til bæjarins Askim, sem er á stærð við Reykjanesbæ og liggur mitt á milli Oslóar og landamæranna að Svíþjóð. Þar var spáð yfir 30 stiga frosti og því eru hlý föt ofarlega í ferðatöskunum. Ólafur segir reyndar á léttum nótum að það sem hann komi til með að sakna frá Íslandi sé hitaveitan. Guðný var eiginlega stax farin að sakna íslenska matarins. Þau voru þó sammála um að það sem væri framundan væri ævintýri sem bæri að horfa til með björtum augum. Þau hafa síður en svo rofið tengslin við Ísland. Internetið verður notað og þegar hafa verið skipulagðir fjölskyldufundir á Skype (myndavél tengd við tölvuna) á föstudögum. Fjölskyldan vonast svo til að geta flutt aftur til Íslands í framtíðinni - þegar ástandið hér verður betra.