Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Video: Útilokar ekki álver í Helguvík
Laugardagur 13. janúar 2007 kl. 11:55

Video: Útilokar ekki álver í Helguvík

Sól á Suðurnesjum vill að fram fari kosning á meðal íbúa Reykjaness um vilja þess til byggingar álvers í Helguvík og virkjana á  Reykjanesskaganum. 70-80 manns sóttu fund samtakanna sem haldinn var í Keflavík í gærkvöldi. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, talskona samtakanna, útilokar ekki álver í Helguvík en vill sjá niðurstöður úr djúpborunarverkefni fyrst. Viðtal við hana er að finna í vefsjónvarpi Víkurfrétta hér á forsíðu vf.is.

Í yfirlýsingu fundarins segir:
Opinn fundur Sólar á Suðurnesjum krefst þess að fallið verði frá áformum um álver í Helguvík og virkjanir á Reykjanesskaganum þar til vilji íbúa hefur verið kannaður með kosningu. Hafnfirðingar einir fá að kjósa um hugsanlega stækkun álvers í  Straumsvík jafnvel þó virkjanir vegna stækkunarinnar verði í öðrum landshluta. Öll mannvirki vegna stóriðjuáforma í Helguvík verða hinsvegar á Reykjanesskaganum og því er réttur Suðurnesjamanna til kosninga um málið augljós.

Reykjanesskaginn hefur jarðfræðilega sérstöðu á heimsvísu þar sem þar er að finna eina staðinn í jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. Jarðfræðileg sérstaða ásamt nálægð við Bláa lónið, flugvöllinn og höfuðborgina skapar einstök tækifæri fyrir ferðaþjónustuna. Stóriðjuáform samræmast illa langtímahagsmunum ferðaþjónustunnar. Gríðarleg tækifæri eru til útivistar á Reykjanesskaganum en háspennulínur myndu rýra útivistargildi hans til muna.

Lítil sem engin umræða hefur farið fram um málið á meðal íbúa svæðisins og þrátt fyrir skiptar skoðanir íbúa er unnið að framvindu málsins af fullum krafti. Virkjanir með tilheyrandi umhverfisraski munu rísa í landi Grindavíkur, Voga og Hafnarfjarðar. Háspennulínur myndu fara um þessi sömu sveitarfélög og þar að auki um Stafnes og Ósabotna í landi Sandgerðis. Álverðið sjálft yrði staðsett í Garðinum og myndi mengun frá því skerða loftgæði jafnt þar sem og í Reykjanesbæ.

 

Sjáið frétt um fundinn í vefsjónvarpi Víkurfrétta á forsíðu vf.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024