Video: Hreinsun hafin við brunarústir í Garði
Hreinsun hefur staðið yfir við brunarústir Kothúsa í Garði frá því í morgun, en þar brann húsnæði Listasmiðjunnar Ársólar, keramikhúss, til kaldra kola í nótt.
Þrjár erlendar konur sem búa í verbúð í sama húsi tilkynntu um brunann og sluppu heilar á húfi.
Að sögn Sigmundar Eyþórssonar, slökkvistjóra Brunavarna Suðurnesja, er nú verið að fjarlægja rústirnar en eldhafið eirði engu í keramiksmiðjunni.„Það er í sjalfu sér afrek að hafa náð að stöðva brunann og einangra hann frá hinum hluta hússins. Það gerðum við með því að rjúfa þakið og sprauta vatni niður með veggnum sem skildi smiðjuna frá geymsluhúsnæði við hliðina.“
Erfitt er að segja til um upptök eldsins sökum þess að allt brann sem brunnið gat í húsinu, en flest bendir til þess að hann hafi sprottið upp frá keramikbrennsluofni.
Sigmundur segir í samtali við Víkurfréttir að strax hafi verið ljóst að eldurinn hafi verið búinn að breiðast mikið út. Allt tiltækt lið BS var kallað út og voru, þegar mest var, 22 slökkviliðsmenn að störfum. Fyrst voru fjórir reykkafarar sendir inn í rýmið og fjórir til viðbótar upp á þak til að rjúfa þakið. Um tíma var útlit fyrir að hægt væri að hafa stjórn á eldinum, en þegar logarnir læstu sig í einangrun í frystiklefa sem var þar inni efldist bálið til muna. Þegar útséð var með að ekki tækist að ráða við bálið var allt kapp lagt á að verja afganginn af húsinu og gekk það sem skildi.
Húsnæðið sem brann var um 400 fermetrar, en húsið er í heildina um 1700 fermetrar.
Mikinn reyk lagði frá húsinu en vindátt var hagstæð þannig að svo virðist sem lítið hafi verið um reykskemmdir annars staðar í bænum. Þó á eftir að athuga hvort afurðir fiskvinnslu sem stendur nærri vettvangi hafi skemmst.
Það hefur sannarlega verið mikill erill hjá BS undanfarið, en nú hefur slökkvilið verið kallað út þrjá daga í röð þar sem um staðfestan eld hefur verið að ræða. Á mánudagskvöld kom upp eldur í bræðslunni í Helguvík og á hádegi þriðjudags var BS kallað út að hausaþurrkuninni á Reykjanesi.
Viðtal við Sigmund á vettvangi
Myndasöfn má finna efst á síðunni Vf-myndir/Þorgils og Hilmar Bragi