Viðbygging Asparinnar tekin í notkun
Þann 28. ágúst var viðbygging við sérdeildina Ösp, í Njarðvíkurskóla, tekin formlega í notkun við hátíðlega athöfn, en deildin var sett á laggirnar haustið 2003. Byggt var við deildina vegna þess fötluðum börnum hefur fjölgað í samræmi við fjölgun íbúa í Reykjanesbæ. Þegar deildin var stofnuð var talið mikilvægt að fötluð börn, sem búsett eru í Reykjanesbæ, ættu kost á skólagöngu í heimabyggð sinni eins og önnur börn. Frá upphafi var markið sett hátt og hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar höfð að leiðarljósi.
Námið er einstaklingsmiðað og hver nemandi stundar nám í bekk í skólanum, með jafnöldrum, eins og hæfni hans og geta leyfa ásamt því að fá sérkennslu og þjálfun við hæfi í Öspinni. Þetta hefur gefist vel og starfar deildin enn eftir þessum grunngildum. Deildin og Njarðvíkurskóli njóta virðingar hjá samstarfsaðilum og þykir starfið vera til fyrirmyndar.
Í upphafi hófu fjórir nemendur nám í deildinni en þeim hefur fjölgað og var orðið mjög þröngt um starfsemina. Öspin er heilsdagsskóli og starfar frá kl. 8 til 16 og nú eru tólf nemendur í deildinni úr Reykjanesbæ, Garði, Grindavík og Sandgerði.