Viðburðarríkt afmælisár hjá MSS
- Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum 20 ára í dag
„Það er líf og fjör hérna til að ganga níu á kvöldin og mjög mikið að gera hjá okkur, það eru um tvö þúsund manns sem koma á námskeið hjá okkur á ári og að auki um þúsund manns sem koma í ráðgjöf,“ segir Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS. Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum fagnar 20 ára afmæli sínu þann 1. febrúar og bjóða þau til veislu af því tilefni þar sem listaverk sem unnin eru út frá sögu nemenda MSS verða meðal annars afhjúpuð. Starfsemi MSS hefur vaxið mikið á þessum tuttugu árum en hún byrjaði í litlu herbergi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og er í dag starfrækt að Krossmóa 4 í Reykjanesbæ þar sem boðið upp á fjölbreytt námskeið og námsleiðir.
Hófu störf í litlu herbergi
„Við hófum starfsemi okkar í Fjölbraut 1998 og fórum síðan fljótlega í Kjarnann þar sem Bókasafn Reykjanesbæjar var til húsa, fengum smá horn til afnota þar. Árið 2000 fórum við á Skólaveginn þar sem gamli barnaskólinn var, þar vorum við fram til ársins 2009 þegar við flytjum okkur hingað í Krossmóa,“ segir Ína. Starfsmenn MSS eru nítján talsins en þau bjóða upp á aðstöðu fyrir háskólanema í fjarnámi sem eru búsettir á Suðurnesjum. Nemendurnir fá aðgang að aðstöðu til þess að læra og eru að meðaltali 100–120 nemendur sem nýta sér hana hjá MSS.
Útskriftarsamkoma í Kirkjulundi
Gátu brugðist við atvinnuleysinu
Starfsemin hefur þróast töluvert mikið hjá MSS frá því að hún var stofnuð árið 1997. Til að byrja með var boðið upp á tómstundanámskeið, íslensku fyrir útlendinga og námskeið fyrir atvinnulífið. MSS hefur einnig markvisst unnið með Vinnumálastofnun frá árinu 2003 en árið 2006 urðu ákveðin straumhvörf þegar það er gerður samningur við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um að fara af stað með náms- og starfsráðgjöf, ákveðnar námsleiðir og raunfærnimat. „Á sama tíma er herinn að fara og atvinnuleysið skellur á tveimur árum síðar, þá höfðum við tæki í höndunum til að bregðast við því og auka menntun á sama tíma.“
Alltaf nóg að gera
Á þeim árum sem atvinnuleysið var sem mest hér á Suðurnesjum, og eftir að herinn fór, varð sprengja í menntun á svæðinu. „Á þessum tíma jókst starfsemin okkar mjög mikið, það voru margir atvinnulausir og tilbúnir til þess að fara í nám. Þarna var mjög mikið að gera hjá okkur, mikil aukning en í dag erum við í svolítið stöðugu tímabili.“ Það er alltaf nóg að gera hjá starfsfólki Miðstöðvarinnar, alveg sama hvernig árar í samfélaginu. „Núna erum við að vinna á öðrum forsendum en þegar atvinnuleysið var sem mest, fyrirtækin eru komin meira inn í starfsemina hjá okkur og það er mikið líf hérna á kvöldin þegar við erum með námskeið.“
Logi Geirs hélt fyrirlestur í nóvember sl.
Fögnum afmælinu í allan vetur
Ýmis konar nám hefur verið í boði hjá MSS í gegnum árin og þar má meðal annars nefna hljóðtækninám, kvikmyndanám, Menntastoðir, Aftur í nám fyrir lesblinda og fleira. Frá því í október í fyrra hafa verið fjölbreyttar uppákomur til þess að fagna afmælinu. „Við höldum viðburðunum áfram fram í maí, janúar var meðal annars tileinkaður fjölmenningu og febrúar verður afmælismánuður. Í mars bjóðum við upp á viðburði tengda fjármálum, apríl er tileinkaður atvinnulífinu og í maí verður skapandi starf. Þetta tengist allt starfseminni okkar og hugmyndin var sú að allir viðburðirnir myndu tengjast okkar starfi og þetta var okkar leið til að gefa eitthvað til baka til samfélagsins.“