Viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli
Í kvöld, rétt eftir klukkan sjö lenti á Keflavíkurflugvelli flugvél frá Bandaríska flugfélaginu North West. Flugvélin sem er af gerðinni DC10 var stödd 280 sjómílur suð-suðvestur frá Íslandi þegar flugmaður vélarinnar tók eftir að ljós kviknaði sem sem sýndi að eldur væri í farangursrýminu. Flugmaðurinn tilkynnti þegar í stað að hann þyrfti að fá lendingarleyfi á Keflavíkurflugvelli sem hann gerði kl. 19.02, að því er segir í tilkynningu frá Flugmálastjórn Íslands.
Fram kemur að skömmu eftir að flugmaðurinn tilkynnti um atvikið slokknaði á umræddu ljósi og því vitað að hættan væri sem betur fer ekki eins mikil og leit út í fyrstu. Þrátt fyrir það lét Flugmálastjórn Íslands Landhelgisgæsluna vita af atvikinu ásamt Almannavörnum. Þessir aðilar voru í viðbragðsstöðu en eins og áður segir hafði ljósið slokknað og því ekki talin mikil hætta á ferð.
Viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli eins og alltaf þegar um öryggislendingu er að ræða, en lendingin gekk vel eins og við var að búast.
Flugvélin sem um ræðir er þessa stundina enn stödd á Keflavíkurflugvelli en hún var að koma frá Amsterdam á leið til Minneapolis, um borð eru 277 manns.
Frétt af mbl.is