Viðar Már tók fyrstu skóflustunguna
Viðar Már Aðalsteinsson, forstöðumaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, tók fyrstu skóflustunguna að Ásahverfinu í Reykjanesbæ föstudaginn 24. mars síðastliðinn.
Skóflustungan markaði upphafið að vinnu við nýja hverfið, Ásahverfi, þar sem búið er að úthluta 130 einbýlishúsalóðum. Allar götur í Ásahverfi eiga að vera fullbúnar í júní og verða göturnar neðst í hverfinu fyrstar. Að sögn Viðars Más ætti að vera hægt að hefja húsbyggingar í byrjun júní.
„Þetta verður skemmtilegt hverfi og plús fyrir okkar bæjarbrag,“ sagði Viðar Már í samtali við Víkurfréttir. „Ef allt gengur eftir þá mun þetta svæði byggjast hratt upp,“ sagði Viðar að lokum.
AÞ vélaleiga átti lægsta tilboðið í jarðvinnu Ásahverfisins og hófu stórvirkar vinnuvélar starfsemi sína um leið og Viðar hafði lokið við fyrstu skóflustunguna.
VF – myndir/ JBÓ