Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Við viljum líka vel launuð störf í Reykjanesbæ
Friðjón Einarsson tekur við mótmælum vegna byggingar kísilvers Thorsil.
Föstudagur 22. maí 2015 kl. 09:53

Við viljum líka vel launuð störf í Reykjanesbæ

- segir Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar. Miklar umræður um málefni Thorsils á bæjarstjórnarfundi

„Mikilvægt er að vanda sérstaklega ákvarðanir í meiriháttar skipulagsmálum þar sem verið er að taka óafturkræfar ákvarðanir,“ segir í fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar en 287 athugasemdir bárust vegna afgreiðslu á deiliskipulagsbreytingum fyrir kísilver Thorsils í Helguvík. Undir þau orð ráðsins tók Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar og formaður bæjarráðs á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag. Hann sagði að ekki væri verið að tefja neitt heldur væri verið að leggja áherslu á vönduð vinnubrögð. Það væri ekki algengt að svona margar athugasemdir bærust. „Við viljum líka vel launuð störf í Reykjanesbæ,“ sagði Friðjón. 

Undir það tók Guðbrandur Einarsson hjá Beinni leið og félagi hans í meirihlutanum. „Ein vika í afgreiðslu málsins skiptir ekki máli. Það er ljóst að þetta er umdeildara en við reiknuðum með. Ég treysti hins vegar eftirlitsaðilum sem vinna eftir evrópskum reglugerðum. Samþykktir hafa verið afgreiddar fyrir áratug og við gætum þurft að horfa fram á skaðabótakröfu. Ég er jákvæður fyrir atvinnuuppbyggingu. Atvinnumál hafa verið mitt aðalstarf og barátta í áratugi,“ sagði Guðbrandur en hann er formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn lögðu fram bókun vegna frestunar á afgreiðslu málsins í umhverfis- og skipulagsráði. „Með frekari töfum er verið að setja í hættu mikilvægt verkefni, sem hefur verið lengi í undirbúningi, stenst allar kröfur gagnvart mengunarvörnum og skapar hundruðum manna vel launuð störf í Reykjanesbæ. Við hvetjum núverandi meirihluta bæjarstjórnar til að ná strax saman um málið og ljúka því. Hver dagur skiptir máli. Við skulum ekki tefja uppbyggingu atvinnulífsins heldur leggja okkar af mörkum til að sú uppbygging sem nú er hafin haldi áfram. Nú er tækifæri til að sýna það í verki að við stöndum með vel launuðum störfum.“ Bæjarfulltrúar flokksins fylgdu þessum orðum eftir í ræðustól og lögðu áherslu á að ljúka málinu. „Uppbygging í Helguvík er ekki nýtt mál og búin að taka langan tíma, nokkuð sem menn hafa verið sammála um. Það er alltof seint að fara að stoppa það ferli núna og engin ástæða til,“ sagði Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðsmanna. Hann benti á að engin óvissa væri þrátt fyrir þessar athugasemdir sem hafi borist, lang flestar hefðu verið verið vegna mengunar og ráðið hefði haft svör við þeim öllum.

Umhverfis- og skipulagsráð mun afgreiða málið frá sér á fundi 27. maí og síðan mun bæjarstjórn gera það á fundi sínum 2. júní. Miðað við umræðurnar á bæjarstjórnarfundinum virðist fátt koma í veg fyrir að málið fái jákvæða afgreiðslu og verði samþykkt.