Við köllum þá „skúffuskynjara“
„Reykskynjarar hafa alltaf verið vinsæl gjöf, þ.e. að börn gefi foreldrum sínum þá. Fyrir það fá krakkarnir klapp á kollinn og svo er skynjaranum stungið ofan í skúffu. Þess vegna köllum við þá „skúffuskynjara“, en það tekur aðeins hálfa mínútu að setja þá upp. Þeir sem stinga skynjurunum ekki ofaní skúffu, spyrja mikið um hvar sé best að staðsetja skynjarana, en staðsetningin skiptir afar miklu máli og ekki má gleyma að skipta reglulega um rafhlöður“, segir Karl Taylor, eigandi Slökkvitækjaþjónustu Suðurnesja.Fólk meðvitaðra um öryggi á heimilumKarl segir að þegar fólk sé að huga að kaupum á eldvarnarbúnaði til heimilisins, skuli það fyrst kaupa reykskynjara, það sé eins og að vera með slökkviliðsmann á vakt 24 tíma á sólarhring.Karl var í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli til margra ára, eða frá 1971 til 1996. Í fyrstu rak hann Slökkvitækjaþjónustu Suðurnesja með vinnunni á flugvellinum en ákvað síðan að snúa sér algerlega að rekstrinum . „Mér finnst fólk vera mun meðvitaðra um öryggi á heimilum en áður. Það má þakka aukinni fræðslu, en Eldvarnareftirlit Brunavarna Suðurnesja sem og Eldvarnareftirlit Grindavíkur, Sandgerðis og Keflavíkurflugvallar eru með öflugt forvarnarstarf, m.a. farið inní skólana og uppfrætt börnin, sem eru besti tengiliður okkar við heimilin“, segir Karl en hann hefur til margra ára kennt eðli elds og fyrirbyggjandi eldvarnir við Slysavarnarskóla sjómanna og Brunamálaskóla ríkisins.Víðtæk þjónustaHjá Slökkvitækjaþjónustu Suðurnesja er hægt að láta hlaða, umhlaða og yfirfara allar tegundir duft-, kolsýru-,vatns- og léttvatnsslökkvitækja. Karl Taylor, eigandi fyrirtækisins, hefur einnig yfir að ráða búnaði til hleðslu á öllum tegundum þrýstihylkja og köfnunarefnishleðslu fyrir duftslökkvitæki en hann sér einnig um að þolreyna slökkvitæki og köfunarhylki fyrir reykköfun og djúpsjávarköfun. Með háþrýstiprófunarbúnaði Slökkvitækjaþjónustunnar er hægt að þolreyna háþrýstihylki fyrir allt að 625 kg/cm2. „Slökkvitækjaþjónusta Suðurnesja hefur rétt til viðhalds og prófunar reykköfunartækja frá Siglingamálastofnun ríkisins og Brunamálastofnun ríkisins og hefur yfir að ráða einni fullkomnustu prófunaraðstöðu fyrir reykköfunartæki sem völ er á. Þar er hægt að prófa reykköfunartæki frá öllum framleiðendum“, segir Karl og bætir við að síauknar kröfur í öryggismálum geri það að verkum að svo sérhæft fyrirtæki, eins og hans, reyni að fylgjast með öllum nýjungum til að geta veitt sem besta þjónustu og hafa ávallt fyrsta flokks búnað til eldvarna á boðstólnum.