Við erum rík af tónlist
-Tónleikaröðin Söngvaskáld á Suðurnesjum í Hljómahöll
Tónleikaröðin Söngvaskáld á Suðurnesjum hefur göngu sína í Hljómahöll á nýju ári þar sem kynntur verður ríkur tónlistararfur Suðurnesjamanna á þrennum tónleikum fram á vor.
Fyrstu tónleikarnir verða haldnir fimmtudaginn 4. febrúar þar sem fjallað verður um hinn ástsæla Vilhjálm Hólmar Vilhjálmsson úr Höfnum, þá verður fjallað um þekkar tónsmíðar héraðslæknis Keflvíkinga og „Grindvíkingsins“ Sigvalda Kaldalóns föstudaginn 3. mars og að lokum eru tónleikar helgaðir Jóhanni Helgasyni 7. Apríl en eftir hann liggja ófáar tónsmíðar og þekkt lög.
Tónleikarnir verða haldnir í Bergi þar sem kynnt verður sagan á bak við tónlistina en kynnir er Dagný Gísladóttir, söngvari er Elmar Þór Hauksson og undirleikur og útsetningar eru í höndum Arnórs B. Vilbergssonar.
Að sögn Dagnýjar er markmiðið að kynna tónlistarmenningu Suðurnesja sem sé rík og þar sé af nógu að taka. „Vonandi er þetta bara byrjunin, það er hægt að halda lengi áfram en við ætlum að sjá til hvernig viðtökur þessi tónleikaröð fær og hvort áhugi er á þessu formi þar sem kynning fer saman við lifandi tónlist.“
Arnór B. Vilbergsson er Suðurnesjamönnum að góðu kunnur en hann starfar sem organisti við Keflavíkurkirkju auk þess sem hann hefur séð um tónlistarstjórn á hinum vinsælu sýningum Með blik í auga. Elmar Þór Hauksson hefur vakið athygli að undanförnu fyrir söng sinn en hann hefur komið fram sem einsöngvari auk þess að syngja með kórum og í kvartett og er Vilhjálmur að hans sögn í miklu uppáhaldi og því við hæfi að hefja tónleikaröðina á honum.
Hljómahöll er samstarfsaðili tónleikaraðarinnar og segir Dagný spennandi að sjá hvernig útkoman verði og jákvætt að verið sé að framleiða efni af svæðinu sem gæti einnig vel hentað fyrir gesti af höfuðborgarsvæðinu og þannig aukið hróður Suðurnesja. „Þetta er okkar framlag til íslenskrar menningar og það er nú ekkert lítið enda hýsum við að sjálfsögðu Rokksafn Íslands í Hljómahöll.“
Miðasala fer fram á hljomaholl.is og tix.is og er miðaverð kr. 3.200.