„Við erum öll í sama liðinu“
- Dræm þátttaka í íbúakosningu um Helguvík
Fleiri íbúar eru hlynntir breytingum á deiliskipulagi í Helguvík en þeir sem eru á móti, þótt mjótt sé á munum. Alls 471 íbúi eða 50.4 prósent er hlynntur breytingunni og þar með uppbyggingu kísilvers Thorsil ehf. við Berghólabraut en 451 eða 48,3 prósent á móti. Samtals skiluðu 12 auðu atkvæði sem gera 1,3 prósent.
Rafrænar íbúakosningar um breytingar á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar kísilvers í Helguvík hófust 24. nóvember sl. Tæplega 2800 íbúar höfðu fyrr á árinu skrifað undir áskorun til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ þess efnis að efnt yrði til íbúakosningar um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík. Einungis þriðjungur þess fjölda tók þátt í kosningunni, eða 8,71 prósent íbúa á kjörskrá.
„Þessi dræma kjörsókn þykir óheppileg þar sem rafrænar kosningar eru tæki sem Reykjanesbær hyggst nota í ríkari mæli í framtíðinni til eflingar íbúalýðræðis og voru nýafstaðnar kosningar liður í því lærdómsferli,“ segir í tilkynningu Reykjanesbæjar.
71,9% hlynnt iðnaðaruppbyggingu
MMR framkvæmdi síma- og netkönnun meðal íbúa í Reykjanesbæ 1. til 6. desember. Könnunin var á vegum óformlegs áhugahóps um atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi. Úrtakið var 1201 einstaklingar og svarhlutfallið 45,4 prósent. Í könnuninni var fólk spurt hvort það væri hlynnt eða andvígt iðnaðaruppbyggingu í Helguvík. Af þeim sem tóku afstöðu voru 71,9 prósent hlynnt og 28,1 prósent andvíg. Sé svörunum skipt niður voru 12,1 prósent mjög andvíg iðnaðaruppbyggingu i Helguvík og 16 prósent frekar andvíg. Þá voru 41,5 prósent frekar hlynnt og 30,3 prósent mjög hlynnt.
Að sögn Guðbrands Einarssonar, forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sýnir könnun MMR að meirihluti íbúa sé hlynntur áframhaldandi uppbyggingu í Helguvík. Aðspurður um það hvort hann telji að sátt náist um uppbyggingu stóriðju í Helguvík eftir íbúakosninguna segir hann öll mannanna verk umdeild og að eflaust verði hægt að takast áfram á um málið. „Ég tel þó að eftir íbúakosninguna og íbúafundinn í Stapa á dögunum hafi umræðan verið á málefnalegri nótum en áður,“ segir hann.
Segir dræma kjörsókn vekja upp spurningar
Í sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2011 er kveðið á um að óski yfir 20 prósent kosningabærra manna í einu sveitarfélagi eftir almennri atkvæðagreiðslu skuli verða við því innan árs. Sambærileg rafræn íbúakosning hefur einu sinni farið fram þegar íbúar Ölfuss kusu um mögulega sameiningu við önnur sveitarfélög. Kjörsókn í þeirri íbúakosningu var 43 prósent. Guðbrandur segir dræma kjörsókn í Reykjanesbæ vekja upp spurningar þar sem aðeins hluti þeirra 2800 íbúa sem skrifaði undir áskorun um íbúakosningu greiddi atkvæði. Hann segir líklegt að ástæðurnar séu margar. „Væntanlegar eru margir sem ekki kusu því þeir styðja verkefnið, aðrir voru ósáttir við að litið yrði á niðurstöðuna sem ráðgefandi. Svo getur einnig verið að fólk hafi ekki þekkt til rafrænna kosninga.“ Guðbrandur kveðst líta þannig á málið að hafi fólk haft áhuga á að kjósa ætti aðferðin við rafræna kosningu ekki að vefjast fyrir fólki enda noti flestir heimabanka og eigi til þess rafræn skilríki. Hann segir jákvætt að byrjað sé að nota rafrænar kosningar. „Þetta er leið sem gerir það að verkum að við getum náð hratt til íbúa og kallað eftir vilja þeirra.“
Telur að umræðan haldi áfram
Dagný Alda Steinsdóttir er einn þeirra íbúa í Reykjanesbæ sem andvígir eru stóriðju í Helguvík. Hún segir marga íbúa hafa átt erfitt með að kjósa rafrænt. „Við vitum að þegar fólk þarf að standa í ströggli við þetta þá er það ekki hvetjandi. Svo voru einnig hnökrar á kerfinu fyrsta daginn. Ef hægt hefði verið að kjósa líka á hefðbundinn hátt hjá sýslumanni þá held ég að margir hefðu kosið það.“ Þá segir hún kosninguna hafa verið lítið auglýsta.
Það kom Dagnýju á óvart hversu margir þeirra sem kusu voru fylgjandi breytingum á deiliskipulagi í Helguvík. „Ég bjóst ekki við að fólk myndi samþykkja þetta. Þó svo að meirihluti bæjarbúa vilji fá þetta, eins og niðurstaðan gefur til kynna, þá held ég að umræðan hætti ekki strax.“ Hún segir fólkið í hópnum sem stóð að söfnun undirskrifta síðasta sumar, hafa ákveðið að hver sem niðurstaðan yrði, þá yrðu þau sáttari með að kosning hefði farið fram. Varðandi framhaldið þá segir hún mikilvægt að hafa í huga að íbúar séu allir í sama liði og þurfi að vera vakandi fyrir því að starfsemi stóriðjufyrirtækjanna hafi sem minnst mengandi áhrif á íbúa. „Við þurfum að ræða hlutina en ekki að berjast. Þetta hefur verið eins og barátta á milli bæjarins og íbúa en við þurfum að ná samstöðu því þetta snertir okkur öll. Við erum öll í sama liðinu.“