„Við erum á réttri leið og mikilvægt að halda áfram á sömu braut“
-sagði forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Ársreikningur bæjarins samþykktur samhljóða
„Við erum á réttri leið og mikilvægt að áfram verði haldið á sömu braut. Það mun skila tilætluðum árangri,“ sagði Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á bæjarstjórnarfundi í gær þegar hann kynnti niðurstöðu ársreikning bæjarins fyrir árið 2017.
Guðbrandur las bókun meirihluta bæjarstjórnar Samfylkingar, Frjáls Afls og Beinnar leiðar og sagði m.a.: „Ársreikningur Reykjanesbæjar 2017 sýnir að útsvarstekjur aukast verulega á milli ára m.a. vegna aukins íbúafjölda, skuldir og skuldbindingar eru að lækka og afgangur af reglubundnum rekstri hefur aldrei verið meiri.
Samkvæmt rekstrarreikningi A-hluta bæjarsjóðs nam afgangur af rekstri 1.206 milljónum króna.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld nam 2.1 milljarði króna. Eigið fé bæjarsjóðs í árslok 2017 nam 5 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfallið nú 15,3%. Heildarskuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs nema rúmum 28 milljörðum króna og er skuldaviðmið bæjarsjóðs 157,77%.
Samkvæmt rekstrarreikningi samstæðu var afgangur af rekstri kr. 1.305 milljónir.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld var 3,7 milljarðar króna. Eigið fé samstæðu A og B hluta í árslok 2017 var tæpir 14.2 milljarðar og er eiginfjárhlutfallið 24,7%.Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu A og B hluta nema 43 milljörðum króna og lækka á milli ára. Skuldaviðmið samstæðu fer úr 208,5% í 185,74%.
Á árinu 2017 var framlegð aukin m.a. með auknum skatttekjum sem og hagræðingu í rekstri og samkvæmt ársreikningi er hún 18,63% í bæjarsjóði og 24,26% í samstæðu.
Allt þetta kjörtímabil hefur verið unnið eftir Sókninni eins og ákveðið var að gera við upphaf þess. Það er að skila þeim árangri að sveitarfélagið nær að uppfylla þau skilyrði sem það undirgekkst í svokallaðri aðlögunaráætlun fyrir árin 2017 til 2022 en þar er gert ráð fyrir að Reykjanesbær nái 150% skuldaviðmiði fyrir árslok 2022.“
Undir þetta rituðu Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Elín Rós Bjarnadóttir og Kolbrún Jóna Pétursdóttir.