Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Við Bryndís erum ekkert að fara“
Föstudagur 13. júní 2014 kl. 09:00

„Við Bryndís erum ekkert að fara“

Viðtal við Árna Sigfússon þegar hann kvaddi samstarfsfólk.

„Við Bryndís erum ekkert að fara. Það þarf eitthvað mikið að gerast til að við höfum áhuga á að flytjast úr þessum fallega og góða bæ sem búið að er byggja upp. Það segir mest um hvað við erum stolt af þessu samfélagi,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í kveðjuhófi og veislu í tilefni 20 ára afmælis bæjarins, í Ráðhúsi Reykjanesbæjar í gær. Aðspurður sagðist hann ekki hafa búast við því að vera svona lengi í þessu starfi. Það hafi verið svo margt sem ýtti á eftir því að halda áfram. Hann rifjaði upp hvað hefði áunnist í ýmsum málefnum og lagði áherslu á hversu mikið hægt er að gera í stærra, sterkara, sameinuðu sveitarfélagi. Vinnubrögðin sem voru þjálfuð upp hér hafi skilað því sem raun var vitni. „Hóparnir sem staðið hafa á bakvið stór verkefni hafa verið tiltölulega fámennir í samanburði við önnur sveitarfélög.“

Spurður um hvort hann gæti hugsað sér að leiða sjálfstæðisflokkinn eftir fjögur ár segist Árni ekki gera ráð fyrir því þegar hann nálgist sjötugsaldur. „Ég tel að ég verði kallaður til annarra verkefna. Það er alveg skýrt að á þessum tímamótum er ég að hætta sem bæjarstjóri og mun taka að mér önnur verkefni. Ég vil leggja samfélaginu lið og hef sinnt samfélagsþjónustu frá því ég kláraði skóla. Ég tek að mér verkefni og vinn þau. Ég held að bæjarbúar hafi ekki fundið fyrir mikilli pólitík þótt ég hafi leitt sjálfstæðisflokkinn þessi ár. Ég hef starfað vel með fólki sem hefur aðhyllst aðra stjórnmálaflokka og það hefur starfað vel með mér. “ Árni segir að þegar hafi verið leitað til hans um að taka að sér misjafnlega áhugaverð störf. „Mín þekking snýr mikið að því að sameina krafta og byggja upp og það er á svo mörgum sviðum. Ég hef stundum líkt mér við alkóhólista að því leyti að það má ekki rétta að mér hugmynd, þá er ég dottinn í það. Ég bið bara um að fá að halda mér þurrum í allavega nokkrar vikur,“ segir Árni í gamansömum tón.

Árni segist hafa gríðarlegan áhuga á málefnum skólanna og tryggja að árangur sem hafi náðst viðhaldist. Hann beindi síðan orðum sínum að starfsfólki ráðhússins og sagði að með störfum sínum gerði það hlutina auðveldari fyrir stjórnendur bæjarins. „Það gengur ekki hver sem er inn í ykkar störf og gerir það sem þið eruð að gera.“

Einnig var honum hugleikin ákvörðun þess hóps í kjölfar hrunsins að gefa 10-15% af vinnu sinni eftir hrun og það væri líklega einsdæmi. „Núna þegar ég kveð í þessu hlutverki er ég mjög bjartsýnn og trúi því að með ykkur er hægt að gera allt vel. Það kemur alltaf maður í manns stað.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024