Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Við ætlum að taka vel á móti þessu fólki
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Miðvikudagur 30. apríl 2014 kl. 10:23

Við ætlum að taka vel á móti þessu fólki

Íbúum Grindavíkur fjölgar brátt um 40.

„Undirbúningur við að taka á móti fólkinu hófst fyrir u.þ.b. mánuði síðan, þegar fréttir bárust af þessum áformum Vísis. Þau eru mjög velkomin í okkar samfélag og munu líklega aðlagast mjög hratt. Samfélagið á Húsavík er ekkert ósvipað og hér. Við bíðum í eftirvæntingu eftir þessum íbúum og ætlum að taka vel á móti þeim,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur í viðtali við Víkurfréttir.

Eins og fram hefur komið í fréttum munu 40 manns, sem störfuðu hjá Vísi, flytjast búferlum frá Húsavík og Djúpavogi til Grindavíkur. Róbert segir samfélagið í Grindavík reiðubúið til þess að taka á móti hópnum. „Við höfum verið að stíla inn á þetta. Við erum sjávarútvegs-, ferðaþjónustu- og matvælaframleiðslubær og hingað er að koma fólk með góða þekkingu í þeim geira.“ 

Um þriðjungur hópsins sem flytur til Grindavíkur er af erlendum uppruna, aðallega pólskir, og Róbert segir að bærinn njóti góðs af því að vera með pólskumælandi starfsmann sem hefur aðstoðað við að kynna væntanlegum íbúum skóla, leikskóla og aðra þjónustu. „Þannig höfum við betur skilið þarfir þessa fólks og getað útskýrt fyrir því hvað bíður þeirra hér. Við sjáum ekki annað en að börnin muni komast að í skólunum strax í haust. Ekki er um mörg börn að ræða svo að við höfum gott svigrúm til að taka á móti þeim og veita þeim þá þjónustu sem þau þurfa.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Spurður um húsnæðismál segir Róbert að verið sé að vinna í að klára íbúðir sem hafa verið ókláraðar. „Sérstaklega í fjölbýlishúsinu sem Íbúðalánasjóður á. Verið er að vinna að því að koma þeim íbúðum í notkun. Húsnæðismálin leysast þannig,“ segir Róbert að lokum.

VF/Olga Björt