Atnorth
Atnorth

Fréttir

VF 40 ára: Stórkostlegir möguleikar
Bláa Lónið á gamla staðnum, alveg við orkuver Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi. Nýtt lón var opnað 1999.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 8. febrúar 2020 kl. 08:47

VF 40 ára: Stórkostlegir möguleikar

á að gera flúðir, fossa og vatnsrennibrautir

Hugmyndir Grindvíkinga og fleiri varðandi byggingu á nýju baðlóni, er tæki við af Bláa lóninu, hafa lítið verið til umræðu hér í blaðinu, ef frá er talin skoðun Hermanns Ragnarssonar o.fl. rekstraraðila baðhúss Bláa lónsins, er birtist hér í síðasta blaði. Grindvíkingar eru langt frá því að vera sáttir við þau orð sem þar voru látin falla og vísa þeim flestum heim til föðurhúsanna. En um hvað snýst málið? Til að fá svör við því og til að kynna málið fyrir lesendum munum við nú greina frá athugun okkar. Þó er ekki um tæmandi úttekt að ræða.
Svona byrjar grein um mikla möguleika baðlóns í Svartsengi í Víkurfréttum 15. febrúar 1990. 

„Hugmyndir þær sem hér eru kynntar eru um staðsetningu á baðlóni norðvestur af Þorbjarnarfelli, í um 800 metra fjarlægð frá núverandi Bláa lóni. Þetta lón yrði fætt með jarðsjó er kæmi beint úr borholu sem hægt væri að hafa stjórn á. Jarðsjórinn yrði því eins hreinn og ómengaður og hann getur orðið. Slysahætta við lónið myndi nánast hverfa og mun minni hætta væri á mengun en nú er.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Í dag er málum þannig háttað, að ef t.d. olía færi niður, s.s. ef olíubíll ylti á Grindavíkurvegi, gæti verulegur skaði orðið þar sem jarðlögin eru mjög lek. Með staðsetningu við Þorbjarnarfell væri á hagkvæmari hátt hægt að tengja affall við skolpkerfi Grindavíkur. Til að svo væri hægt frá núverandi stað þyrfti að leggja lögn yfir Selháls og byggja þar öfluga dælustöð.

Hugmyndir um staðsetningu baðlóns á þessum nýja stað komu fyrst fram á ráðstefnu, sem haldin var á Hótel Loftleiðum 1983 og fjallaði um uppbyggingu heilsustöðvar í Grindavík. Þar varð niðurstaðan sú að þessi staðsetning væri best. Þá kom fram greinargerð um baðaðstöðu í Svartsengi í maí 1986 frá þeim Hitaveitumönnum Alberti Albertssyni og Júlíusi Jónssyni. Var þar eindregið mælt með því að komið yrði upp nýju lóni annars staðar en núverandi staðsetning er.

Í greinargerð þeirra Alberts og Júlíusar er m.a. slegið upp eftirfarandi hugmynd: „Dæling jarðsjávar í baðlónið gefur mikla möguleika umfram þá sem eru í Bláa lóninu. Með réttu vali á dælum og stjórnbúnaði þá má dæla jarðsjó svo hann fái næga orku til að mynda flúðir, fossa, vatnsrennibrautir, jarðsjávargos, öldugjálfur, vatnsnudd, kísileðjunudd o.fl. o.fl.“

Þá hefur Orkustofnun kannað aðstæður fyrir Grindavíkurbæ og rennir það stoðum undir málið. Rannsóknir á veðurfari, sem þegar liggja fyrir, mæla með byggingu heilsustöðvar og nýju baðlóni á viðkomandi svæði, þ.e. norðvestur af Þorbjarnarfelli. Þjónustukerfi, vegir og holræsi, sem slíkri uppbyggingu er nauðsyn, tengist svæðinu á hagstæðan hátt. Gert er ráð fyrir að tillögur að aðalskipulagi fyrir svæðið liggi fyrir á fyrri helmingi þessa árs.

Eins og sést af framangreindu er margt, og raunar flest, sem mælir með því að nýtt baðlón verði byggt á viðkomandi stað, lón er tæki við af Bláa lóninu.

Framangreindar upplýsingar eru byggðar á greinargerðum frá Hitaveitu Suðurnesja, Orkustofnun og bæjaryfirvöld Grindavíkur, svo og samtölum við menn frá viðkomandi aðilum. Þar sem hér er um mikið og athyglisvert mál að ræða munum við fjalla nánar um það í næsta tölublaði.

Frétt úr Víkurfréttum fimmtudaginn 15. febrúar 1990.

Samtímasaga Suðurnesja í fjóra áratugi

Á þessu ári fögnum við þeim tímamótum að Víkurfréttir hafa komið út í 40 ár. Frá fyrsta tölublaði Víkurfrétta sem kom út 14. ágúst 1980 hafa komið út nærri 1900 tölublöð, síðurnar yfir 20.000 og fréttirnar næstum óteljandi. Til að fagna afmæli Víkurfrétta á þessu ári ætlum við reglulega að glugga í gömul blöð og rifja upp fréttir, sýna ykkur gamlar myndir og jafnvel að heyra í fólki og taka stöðuna eins og hún er í dag. Í þessari viku skoðum við frétt frá því í febrúar 1990 eða fyrir 30 árum síðan. Fréttin tengist svæði sem hefur verið talsvert í fréttum síðustu daga, svæðinu vestan við Þorbjarnarfell. Þar hefur verið hratt landris og lýst yfir óvissustigi almannavarna. Fréttin sem við skoðum er hins vegar um nýtt baðlón Bláa lónsins sem var til umræðu á þessum tíma fyrir réttum 30 árum.