VF 1993: Risabruggstöð lokað
Úr Víkurfréttum fimmtudaginn 15. júlí 1993
Lögreglan í Grindavík upprætti á mánudagskvöld næststærstu bruggverksmiðju sem fundist hefur hér á landi. Verksmiðjan var staðsett í verbúð í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Tveir ungir menn úr Hafnarfirði voru handteknir og játuðu að eiga stórvirk tæki og tól sem fundust við húsleit.
Lögreglan komst á snoðir bruggarana fyrir réttri viku og lét til skarar skríða á mánudag eftir að hafa fengið húsleitarheimild í verbúðinni. Þegar lögreglan kom á staðinn fundust mjög fullkomin og öflug eimingartæki, einnig 1200 lítrar af gambra, 30 lítrar af spíra, 450 kíló af strásykri og 100 lítrar af ávaxtasafa.
Á staðnum fundust einnig notaðar umbúðir utan af sykri og ávaxtasafa í miklu magni og telur lögreglan í Grindavík, sem fékk kollega sína úr Breiðholti sér til liðssinnis við þetta verkefni, að bruggverksmiðjan hafi verið starfrækt í verbúðinni frá því um miðjan júní. Söluverðmæti þess sem fannst ásamt hráefni til framleiðslunnar nemur um einni og hálfri milljón króna.
Talið er að bruggstarfsemin tengist umfangsmikilli dreifingarstarfsemi á bruggi á stór-Reykjavíkursvæðinu.
Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Grindavík, sagði að ekki væri talið að nein sala hafi átt sér stað í Grindavík. Mennirnir sem handteknir voru eru úr Hafnarfirði og hafa áður komið við sögu við svona mál. Rannsóknardeild lögreglunnar í Keflavík hefur fengið málið til frekari rannsóknar.