VF 1993: Draugagangur í beitningaskúr
- í gömlu fiskvinnsluhúsi á Suðurnesjum
Úr Víkurfréttum fimmtudaginn 29. apríl 1993
Draugagangur er í beitningarskúr í gömlu fiskvinnsluhúsi á Suðurnesjum. Þetta kann að finnast ótrúlegt en húsráðandi hefur staðfest þessa sérstæðu frétt í samtali við Víkurfréttir. Það var snemma í vetur sem fólk á staðnum fór að finna fyrir undarlegri tilfinningu í húsinu. Einn húsráðenda segir svo frá:
„Það var fyrr í vetur að félagi minn var í húsinu að næturlagi. Hann sagðist hafa fundið þá tilfinningu að einhver væri við öxlina á honum. Enginn var þó í húsinu nema hann.“
Draugurinn birtist starfsmanni
Annað starfsfólk hefur einnig fundið fyrir tilvist veru í húsinu, sem menn hallast helst að sé draugur, en hafa ekkert séð. Það var síðan í kringum síðustu mánaðarmót sem draugur birtist starfsmanni sem var að vinna við beitningu. Viðkomandi starfsmaður hefur staðfest þetta í samtali við fréttamann. Draugurinn sást mjög greinilega en hann birtist eftir að rökkva tók. Starfsmaðurinn hefur m.a. lýst klæðnaði draugsins og útliti.
„Verður að taka alvarlega“
„Við gerðum grín af þessu í fyrstu og sögðum þetta vera algjöra vitleysu. Svona lagað verður hins vegar að taka mjög alvarlega,“ sagði húsráðandi við Víkurfréttir. „Það hefur hins vegar ekki borið á neinu síðustu vikuna eða hálfan mánuð. Hver ástæðan er vitum við ekki. Draugurinn hefur ekki viljað okkur neitt illt, heldur virðist hér vera einhver sem þarf að koma skilaboðum frá sér,” sagði viðmælandi blaðsins.
Kunnugir segja drauginn vera mann sem fórst í sjóslysi fyrir nokkrum áratugum. „Maður hefur heyrt það að hér á landi sé mikið af ósáttum sálum, sem þurfa að koma skilaboðum á framfæri,“ sagði viðmælandi blaðsins að endingu.