VF 1988: Ungmeyjar heimsækja hermenn
Fyrir tæpum þremur vikum bilaði rafmagnsstýrt hlið við Varnarliðsstöðina við Grindavík, með þeim afleiðingum að það hefur síðan haldist opið. Að sögn aðila er hafa aðgang að stöðinni, stóð ekki á að grindvískar ungmeyjar notfærðu sér þetta og hafa síðan heimsótt stöðina all mikið.
Af þessu tilefni hafði blaðið samband við Þorgeir Þorsteinsson, lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, en hann hefur einnig umsjón með íslenskri löggæslu í stöðinni í Grindavík. Eftir að hafa kannað málið sagði hann það rétt vera að einhverjar stúlkur hefðu komið þarna, en engin vandkvæði hlotist af því, a.m.k. hefðu engar kvartanir borist.
Þó í orðum Þorgeirs komi fram að engin vandkvæði hafi hlotist af þessu, hefur blaðið það þó eftir áreiðanlegum heimildum að hér sé meira um að ræða en heimsóknir örfárra stúlkna.
VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi grein birtist 28. janúar 1988.