Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Veturinn var erfiður en framtíðin er björt“
Kristófer Þorgrímsson einn af eigendum hótel Grásteins á útisvæði hótelsins
Fimmtudagur 16. júlí 2015 kl. 09:56

„Veturinn var erfiður en framtíðin er björt“

-segir Kristófer Þorgrímsson, einn af eigendum hótel Grásteins

„Öll herbergin hjá okkur eru með sér baðherbergi og mjög rúmgóð. Þau teljast tveggja manna en ef hjón eru með tvö börn með sér er nóg pláss fyrir þau í svefnsófa sem er í fimmtán herbergjum af alls sautján sem eru á hótelinu,“ sagði Kristófer Þorgrímsson, einn af eigendum Hótel Grásteins sem staðsett er að Bolafæti 11 í Njarðvík, í samtali við Víkurfréttir.

Hótel Grásteinn opnaði formlega þann 1. júlí í fyrra. Samtals eru sautján, tveggja manna herbergi á hótelinu. Stór og góður veitingasalur er á hótelinu þar sem gestir geta fengið sér morgunmat á glæsilegu hlaðborði. Þá er hægt að ganga út á pall úr veitingasal þar sem hægt er að njóta veðursins og jafnvel skella á grillið. Framkvæmdir hófust við að breyta þessu gamla iðnaðarhúsnæði, sem áður var m.a. lagerhúsnæði fyrir Íslenskan Markað í yfir 30 ár, í maí í fyrra. „Ég og synir mínir fjórir unnum þetta níutíu prósent sjálfir, með annarri vinnu og keyptum bara út vinnu múrara og rafvirkja. Við fengum svo þá Víkurásmenn til að smíða innréttingar og þeir smíðuðu allt inn í hótelið, allar innréttingar, hurðir og meira að segja náttborðin á herbergjunum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Síðasti vetur var nokkuð erfiður enda við ný á markaðnum. Það tekur alveg tvö ár að vera sýnileg á markaðnum og skapa sér orðspor þannig að það var alveg eðlilegt. Núna er hins vegar nóg að gera og framhaldið mjög gott með bókanir, bæði í sumar og eins í vetur. Við erum mjög bjartsýn á framhaldið enda fjölgar ferðamönnum mikið og Suðurnesin hafa upp á mikið að bjóða fyrir þá,“ sagði Kristófer að lokum.


Séð inn í hinn glæsilega veitingasal hótelsins

Hótel Grásteinn er staðsett við Bolafót í Njarðvík