Vestan-ofsaveður kemur snögglega í kvöld
Reykjanesið er í skotlínu óveðursins, ef hægt er að nota það orðalag, segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. Gríðarlegur viðbúnaður er vegna óveðursins sem er í vændum og í kvöld mun veðrið nálgast það að flokkast sem fárviðri.
Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að loftvogin falli ört og lægðin nálgist. Við erum að sjá storminn skella fljótlega á eftir hádegi og þetta gerist nokkuð hratt. Þessu fylgir síðan úrhellisrigning víða á sunnanverðu landinu, að sögn Þorsteins.
„Við höfum eiginlega meiri áhyggjur af vestan-ofsaveðri sem er spáð um kvöldmatarleytið og skellur á hér á suðvesturhorninu af miklum þunga um það leyti. Það getur gerst mjög snögglega,“ segir Þorsteinn þegar mbl.is ræddi við hann nú áðan.